Sigurjón Þórðarson skrifar:
Þrönga auðmannaklíkan í SFS kann sér ekki magamál en í gær fréttist af því að Ísfélagið væri að stilla brothættum sveitarfélögum upp við vegg og færi fram á að Langanesbyggð tæki þátt í byggingarkostnaði.
Stjórnmál
Æðsti prestur vitleysunnar í sjávarútvegi, Ragnar Árnason emerítus var látinn vera boðberi sannleikans á fundi SFS, þar sem rekinn var harður áróður fyrir afnámi allra gjalda af SFS. Ragnar er sérfræðingurinn sem hélt því fram árið 2007 að hagkvæmast væri að hætta þorskveiðum í a.m.k. eitt ár til þess að fá enn meiri afla seinna. Hann hélt því fram í ljósi þess hve þjóðarbúið stæði vel. Málið er að kenningar Ragnars í fiskifræði hafa aldrei gengið upp og munu aldrei ganga upp og allir vita hvað þjóðarbúið stóð vel ári fyrir hrun eða hitt þá heldur.
Þrönga auðmannaklíkan í SFS kann sér ekki magamál en í gær fréttist af því að Ísfélagið væri að stilla brothættum sveitarfélögum upp við vegg og færi fram á að Langanesbyggð tæki þátt í byggingarkostnaði og fyrirspurn íbúa í Fjallabyggð á fundi á Ólafsfirði gaf til kynna að fyrirtækið hefði fengið sérstakan afslátt hjá Fjallabyggð af hafnargjöldum. Fyrirtæki SFS eru farin að sækja stíft í að komast yfir alla byggðakvóta m.a. samfélagsfyrirtækið FISK Seafood á Sauðárkróki.
Núverandi fyrirtæki sem eru ofan á nú í sjávarútvegi eru það ekki vegna þess að þeim sé stjórnað betur en öðrum fyrirtækjum eða að í þau hafi valist rjóminn af stjórnendum þjóðarinnar sem hafa getað gert eitthvað sem aðrir kunna ekki. Ástæðan er einfaldlega sú að þau hafa einokun á því að nýta sjávarauðlindina og geta nálgast hráefnið langt undir markaðsvirði. Þetta veit Bjarni Benediktsson forsætisráðherra mætavel en þegar á hólminn er komið þá stendur hann ekki með þjóðinni en mögulega metur hann stöðu sína rétt eins og litli sveitarstjórnarmaðurinn á Þórshöfn þ.e. að hann treystir sér ekki í þá stóru?
Ef Bjarni væri að hugsa um almannahag þá tæki hann á því að stóru sjávarútvegsfyrirtækin komist upp með að verðleggja hráefnið langt undir raunvirði og þar að auki að þau hafi sjálfdæmi um að endurvigta aflann.
Þjóðin fengi mun meira í sinn hlut ef lögð yrðu niður öll auðlindagjöld og í stað þess yrði komið á eðlilegri verðmyndun og vigtun aflans.
Fiskurinn færi þá til vinnslu til þeirra sem gætu greitt hæsta verðið og það myndi skrúfa fyrir streymi fjármuna í skattaskjól.
Það er engin vestræn þjóð sem sættir sig sambærilegt ástand og ríkir hér á Íslandi hvað varðar helstu útflutningsgrein landsins sem byggir þar að auki á sameiginlegri náttúruauðlind landsmanna.
Það gerir ekki heldur Namibía.