Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skrifar:
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag segir Arnór Ragnarsson að álögur á eldri borgara muni hækka vegna skattkerfisbreytinga sem eru boðaðar nú um áramót. Nánar tiltekið að eldri borgari með 300 þ.kr. tekjuskattsstofn muni greiða 400 kr. meira í skatt á mánuði á næsta ári vegna fyrirhugaðra breytinga á sköttum.
Þetta er á misskilningi byggt sem sjálfsagt er að leiðrétta.
Hið rétta er að eldri borgari með tekjuskattsstofn upp á 300 þúsund kr. hefði í óbreyttu kerfi haldið eftir 247.546 kr. 2020 en mun halda eftir 250.244 kr. í nýju skattkerfi. Hann fær því skattalækkun upp á 2.700 kr. á mánuði frá áramótum eða rúmlega 32 þ.kr. í auknar ráðstöfunartekjur á árinu 2020.
Þetta er einungis fyrri hluti skattalækkunarinnar. Á árinu 2021 lækka skattarnir enn frekar og munar þá 7.532 kr. á mánuði eða 90.384 kr. á ári. Þá má geta þess að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga munu að auki hækka um 3,5% árið 2020.
Nýtt tekjuskattskerfi mun auka, ekki skerða, ráðstöfunartekjur eldri borgara og hækka ráðstöfunartekjur allra tekjutíunda. Alls munu heimilin hafa 21 ma.kr. meira milli handanna á ári frá og með 2021.