- Advertisement -

Bjarni Ben: Hóta hækkun á virðisaukaskatti

- þáverandi stjórnarandstaða varaði við hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu árið . Óafturkræft, sagði Guðlaugur Þór.

„Það er brugðist við vaxtarmöguleikum ferðaþjónustunnar með því að hóta þreföldun virðisaukaskattsins og hækkun vörugjalda á bílaleigufyrirtæki…,“ sagði Bjarni Benediktsson.

Mikið gekk á, innan þings og utan, þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hugðist hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu.

„Nú eru kynntar til sögunnar fjölmargar nýjar álögur. Tryggingagjaldið stendur í stað þrátt fyrir að því sé haldið fram að atvinnuleysi fari minnkandi. Það er brugðist við vaxtarmöguleikum ferðaþjónustunnar með því að hóta þreföldun virðisaukaskattsins og hækkun vörugjalda á bílaleigufyrirtæki…,“ sagði Bjarni Benediktsson, þá stjórnarandstæðingur, á Alþingi í september 2012.

Í valdatíð hans vill svo til að tryggingagjaldið hefur lækkað mun minna en gott framboð atvinnu gefur tilefni til. Þá ætlar ríkisstjórn Bjarna að færa ferðaþjónustuna í efra þrep. Sama aðgerð og hann stendur fyrir nú.

Færri bókanir

Stjórrnarandstæðingur Bjarni var ákveðinn. Félagi hans og samráðherra nú, Guðlaugur Þór Þórðarson var öllu ákveðnari. „Það hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum hvaða áhrif þessi hækkun hefur á ferðaþjónustuna, hún hefur nú þegar haft mjög neikvæð áhrif,“ sagði Guðlaugur Þór í desember 2012. Hann sagðist hafa upplýsingar um það væru fimmtán prósent færri „…bókanir hjá Icelandair-hótelunum í dag en á sama tíma í fyrra.“

„Menn misstu af þúsund manna ráðstefnu sem þeir voru að keppa um, sem átti að vera hér á Íslandi, til Dubai. Menn misstu stóra ráðstefnu sem átti að vera í Hörpu til Barcelona. Á sama fund…“ „…kom hóteleigandi sem sagði að sá aðili sem pantar mest hjá honum frá Bandaríkjunum var að taka hótelin út hjá sér. Þegar hann fékk ekki svör við því hvert virðisaukaskattsstigið yrði sagði hann: Þá get ég ekki haft þig inni. Staðan hjá þessum ferðaþjónustuaðila sem fékk flestar pantanirnar frá Bandaríkjunum fer úr því sem hún var, sem ég spurði nú ekki um hver var, í ekki neitt. Þessi hækkun hefur þegar valdið skaða,“ sagði þingmaðurinn Guðlaugur Þór.

„Sumt af þessu er óafturkræft,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.

Óafturkræfar afleiðingar

Guðlaugur Þór kunni fleiri dæmi af afleiðingum þess að hækka virðisaukaskattinn. „Hætt hefur verið við eða að minnsta kosti er búið að fresta stækkun á Hótel Hamri á þeim fallega stað, Borgarfirði, og Hótel Varmahlíð. Þetta eru bara upplýsingar sem við fengum í dag frá aðilum sem settust niður með okkur í nefndinni. Þetta er ekki nákvæm úttekt en dæmi um neikvæð áhrif sem þegar eru orðin vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Sumt af þessu er óafturkræft.“

Ekkert samráð

Í sama mánuði sagði Guðlaugur Þór ríkisstjórn þess tíma hafi ekki unnið með hagsmunaaðilum. „…að baki lágu mjög sérkennilegar hugmyndir um hvernig ástandið væri á þessum markaði. Fyrirhuguð skattahækkun er ekki enn gengin í gildi en hún er þegar farin að hafa áhrif. Komið hefur fram í fjölmiðlum að bókanir fyrir næsta ár eru fimmtán prósent færri en á þessu ári. Icelandair opinberaði það núna um daginn, fimmtán prósent færri.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: