Öldungadeild Sjálfstæðisflokksins er að leysast upp. Drjúgur hluti hennar hefur fært sig yfir til Miðflokksins. Helst bera öldungarnir fyrir sig að frammistaða Sigmundar Davíðs í baráttunni við hrægammana hafi verið góð. Hann heillaði þá.
Annar hluti öldunganna segir að þeir geti kosið annan flokk en Sjálfstæðisflokkinn og á meðan Bjarni er formaður muni þeir hvorki kjósa Sjálfstæðisflokk né aðra flokka. Munu sitja hjá.
Svo er það hlutinn sem enn hangir í Sjálfstæðisflokknum. Tvístígandi. Elstu kjósendurnir hafa til þessa verið öruggustu stuðningsmenn flokksins. Yngstu kjósendurnir hrífast ekki að Sjálfstæðisflokknum og hafa ekki lengi gert.
Einn þeirra sagði í samtali við Miðjuna að hann hafi alla tíð borgað drjúga skatta. Sagðist stoltur af því að borga mikið þar sem hann væri í stöðu til þess. Sá sagði vont til þess að hugsa að nú væri formaður flokksins sem hafi sjálfur reynt að koma sér undan skattgreiðslum.
Sjálfstæðisflokkur Bjarna er í alvarlegum vandræðum. Þeir sem mest hafa borgað til flokksins eru að snúa baki við honum. Þeir koma ekki aftur meðan Bjarni er formaður.
Staðan er samt sú að enginn þeirra sem talað er við getur bent á heppilegan arftaka. Sannast þá enn og aftur að staðan er sú að flokkurinn situr uppi með Bjarna og Bjarni situr uppi með flokkinn. Þetta er óburðug staða.