Bjarni á Alþingi: „Bætur eru ekki laun“
„Varðandi almannatryggingar og spurninguna hvers vegna ekki sé nákvæmlega sama viðmið í almannatryggingum og á við um launahækkanir lífskjarasamninga, þá vænti ég þess að hér sé verið að vísa til þess að í lífskjarasamningunum var áhersla á sérstaka hækkun lægstu launa. Í almannatryggingum erum við sérstaklega að styðja við þá sem eru með lága framfærslu. Aðalsvarið við þessari spurningu liggur í því að almannatryggingakerfið er bótakerfi. Það er ekki launakerfi ríkisins. Bætur eru ekki laun samkvæmt lögum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í þingræðu.
„Viðmiðið um hækkun frá einu ári til annars eru almennar umsamdar kjarahækkanir á vinnumarkaði, 69. gr. laganna sem við ræðum svo oft og iðulega hér. Vilji menn breyta þessu þannig að þessar tilteknu bætur eigi að breytast í takt við breytingu lægstu launa í landinu þarf það að standa í lögum. Við erum bara að fylgja lögum um þetta efni.“