Fréttir

Birgir Þórarinsson hringdi til Grikklands

By Miðjan

November 08, 2022

„Þegar ég sá þetta í fréttunum þá hringdi ég til Grikklands og ræddi við framkvæmdastjóra Alþjóðaflóttamannastofnunarinnar, sem ég hitti þar úti þegar ég skoðaði flóttamannabúðirnar í Grikklandi, og ég spurði hann sérstaklega að því hvort þessir aðilar og þessi fatlaði maður væru á götunni. Hann sagði að ef þessir einstaklingar og þar með þessi fatlaði einstaklingur myndu óska eftir því að fá að fara aftur í flóttamannabúðir yrði orðið við því. Ég held að það sé rétt að halda þessu algerlega til haga, frú forseti,“ sagði Birgir Þórarinsson, Sjálfstæðisflokki og áður Miðflokki, á Alþingi í dag.

„En það sem ég vildi segja hér sérstaklega er um það sem háttvirtur þingmaður Sigmar Guðmundsson sagði hér áðan, hann sagði að þeir flóttamenn sem voru sendir núna til Grikklands, m.a. fatlaður maður, byggju á götunni í Grikklandi. Ég vil spyrja hann að því hér, og hann getur kannski svarað því síðar undir öðrum lið, hvað hann hafi fyrir sér í þeim efnum,“ sagði Birgir.