- Advertisement -

Birgir Ármannsson og stjórnarskráin

„…samtal um stjórnarskrármál á efnislegum forsendum á grundvelli staðreynda og skoðana en ekki slagorða.“

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, kann öðru betur að tefja mál. Og gerir það þannig að erfitt er að mótmæla honum. Hann talaði um breytingar á stjórnarskrá á Alþingi í gær. Og sagði á einum stað: „…skiptir máli að gera breytingar í sem víðtækastri sátt…“ Í þessum fáum orðum birtist helsta vörn Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn er tregur til breytinga á stjórnarskránni og gætir þess að ekki verði „víðtæk sátt“. Þannig nær hann sínu fram. Birgir Ármannsson sagði:

„Aðalatriðið er það að fólk nálgist viðfangsefni sem eru stjórnarskrárbreytingar með nokkur meginmarkmið í huga:

Í fyrsta lagi að gera þær breytingar sem skipta einhverju máli, nauðsynlegar eru, þjóna einhverjum tilgangi, eru til að leysa einhver vandamál, ekki bara til að gera eitthvað eins og sumar tillögur ganga út á sem fram hafa komið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Pólitísk álitamál verða ekki endilega öll leidd til lykta með stjórnarskrárbreytingum.

Í annan stað skiptir máli að breytingarnar séu vel ígrundaðar og hugsaðar í þaula þannig að það sé nokkurn veginn sameiginlegur skilningur á því hvað þær þýða og hvað þær hafi í för með sér þannig að þingið, þegar það gengur frá stjórnarskrárbreytingum, átti sig á því hvaða afleiðingar þær samþykktir hafa.

Í þriðja lagi skiptir máli að gera breytingar í sem víðtækastri sátt þannig að það sé ekki háð pólitískum sviptivindum á hverjum tíma hvernig stjórnarskráin lítur út, þannig að stjórnarskráin geti staðið af sér breytingar á hinum pólitíska vettvangi. Stjórnarskrá á að geta þjónað sem leiðbeining um það hvernig stýra á landinu, hvernig ákvarðanir eru teknar í landinu, hvort sem það er hægri stjórn í landinu, vinstri stjórn, miðjustjórn eða hvað það er. Pólitísk álitamál verða ekki endilega öll leidd til lykta með stjórnarskrárbreytingum. Þær eiga fyrst og fremst að þjóna þeim tilgangi að segja okkur hvernig við tökum ákvarðanir á hinu pólitíska sviði.“

Áður en Birgir steig úr pontu sagði hann: „Þetta vildi ég leggja áherslu á, hæstvirtur forseti, á þessum degi og vona að við getum átt, bæði á morgun og sem oftast, samtal um stjórnarskrármál á efnislegum forsendum á grundvelli staðreynda og skoðana en ekki slagorða.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: