Birgir á handbremsu stjórnarskrárinnar
„Ég tel hins vegar fullvíst, að þeir muni litlum árangri ná, sem enn eru fastir í atburðum vorsins 2013,“ skrifar Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, um hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni.
Birgir, sem hefur mest afskipti Sjálfstæðismanna, haft af stjórnarskrárbreytingum skrifar í Moggann í dag. Hann vill fara hægt í allar breytingar á stjórnarskránni.
„Málamiðlanir í kjölfar málefnalegra rökræðna eru að mínu mati vísasta leiðin til að komast út úr þeim skotgrafahernaði, sem ríkt hefur í stjórnarskrárumræðum hér á landi undanfarinn áratug,“ skrifar Birgir.
„Í hvert skipti sem lagðar hafa verið fram einhverjar tillögur að afmörkuðum stjórnarskrárbreytingum hafa komið fram háværar raddir um að engar breytingar megi gera, sem ekki feli í sér að tillögur stjórnlagaráðs frá 2011 verði allar samþykktar, annaðhvort óbreyttar eða í samræmi við þær breytingartillögur sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis lagði til veturinn 2012 til 2013. Það dugi ekki að vinna verkið í áföngum og taka fyrir eina, tvær eða þrjár breytingartillögur í einu – ekkert sé ásættanlegt nema sú niðurstaða að umskrifa nær allar 80 greinar gildandi stjórnarskrár og bæta 34 nýjum við. Allt annað séu hrein svik. Krafa þeirra sem svona tala er með öðrum orðum: Allt eða ekkert! Lesendur geta svo velt því fyrir sér hversu miklum árangri menn ná með slíkri nálgun og hversu líklegt sé að hún skili einhverjum raunverulegum ávinningi þegar horft er til einstakra málefna sem menn bera fyrir brjósti.“
Fyrst reynir á hverjir verða tilbúnir…
Ekki fer á milli mála að Birgir slær á fingur Stjórnarskrárfélagsins.
Birgir heldur áfram: „Eins og fram kom hér að framan má búast við því að línur fari að skýrast á næstu vikum um það, hvort samstaða náist á hinum pólitíska vettvangi um nokkrar, afmarkaðar stjórnarskrárbreytingar. Fyrst reynir á hverjir verða tilbúnir til að standa að flutningi slíkra frumvarpa, og svo í framhaldinu hvort nægilega víðtæk sátt verði um framgang þeirra á Alþingi, bæði því sem nú situr og eins og á nýju þingi að afloknum alþingiskosningum. Margt er enn óvíst í þessu sambandi.“
Birgir rífur í handbremsu stjórnarskrárbreytinga.
„Ég tel hins vegar fullvíst, að þeir muni litlum árangri ná, sem enn eru fastir í atburðum vorsins 2013. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, þrisvar verið kosið til Alþingis, samsetning þingsins breyst fram og til baka, nýir meirihlutar myndast og horfið, stjórnmálaflokkar verið stofnaðir og horfið, og umræður um stjórnarskrármál breyst með ýmsum hætti. Þetta ættu allir að horfast í augu við.“