- Advertisement -

Hörkuskot á Ríkissjónvarpið – viðkvæm umræða í skjóli nætur

Á Íslandi ríkir meiri ójöfnuður en í nokkru öðru menningarlandi milli þeirra sem fastir eru í  krónuhagkerfinu og hinna sem eru frjálsir að því að standa utan þess.

„Ríkisstjórnin kaus að láta umræðu um stjórn makrílveiða fara fram að næturþeli fyrir tveimur vikum eða svo. Hugsanlega var þetta markverðasta umræðan á þessu þingi. Hún dró nefnilega fram skýrar hugmyndafræðilegar línur milli stjórnarflokkanna þriggja annars vegar og þriggja af fimm stjórnarandstöðuflokkum hins vegar,“ þannig skrifar Þorsteinn Pálsson, í nýrri grein, á hringbraut.is

„Athyglisvert er hversu fjölmiðlar, og alveg sérstaklega sjónvarp ríkisins, hafa lítinn áhuga á að miðla fréttum þegar hugmyndafræðilegur ágreiningur er uppi á Alþingi. Það á til að mynda við um þetta mál,“ skrifar forsætisráðherrann fyrrverandi.

„Einn helsti styrkleiki ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hefur legið í því að fáir hafa séð að stjórnarandstöðuflokkarnir fimm gætu náð saman um annan ríkisstjórnarkost. Það er að vísu ekki unnt að draga þá ályktun af umræðunni um makrílinn að fram sé kominn nýr kostur um ríkisstjórn til mótvægis við ríkjandi hugmyndafræði í stjórnarráðinu. En umræðan og tillöguflutningur flokkanna þriggja var eigi að síður vísir að einhverju nýju. Hitt er svo annað hvort eitthvað verður úr því nýjabrumi.“

Hvergi meiri ójöfnuður

Síðar í þessum fína pistli skrifar Þorsteinn:

„Á Íslandi ríkir meiri ójöfnuður en í nokkru öðru menningarlandi milli þeirra sem fastir eru í  krónuhagkerfinu og hinna sem eru frjálsir að því að standa utan þess. Hagfræðingar hafa bent á að þessi skipan mála leiðir til þess að gjáin milli þeirra sem eiga mest og hinna sem eiga minna breikkar stöðugt.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var í raun og veru mynduð fyrst og fremst til þess að standa vörð um þetta kerfi, sem er einn helsti áhrifavaldurinn um  vaxandi ójöfnuð í eignaskiptingu. Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír tala hins vegar í þá veru að á þessu sviði þurfi kerfisbreytingu til að jafna aðstöðumun.

Varðandi samstarf við aðrar þjóðir vilja ríkisstjórnarflokkarnir þrír óbreytt ástand sem á rætur í  þrjátíu ára gamalli heimsmynd. Nokkrir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna veifa popúlískri  Brexithugmyndafræði og eru kannski að því leyti nær nútímanum.

Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír standa augljóslega fjær þjóðernispopúlisma og virðast opnari fyrir dýpra evrópsku samstarfi með þeim þjóðum sem næst okkur standa í menningarlegum efnum. Þeir horfa einfaldlega fram frá sjónarhorni nýrrar heimsmyndar meðan ríkisstjórnin horfir til baka.

Á báðum þessum sviðum á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hugmyndafræðilega samleið með Miðflokknum.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: