Stjórnarandstaðan veitti Vinstri grænum bilmingshögg á Alþngi í gær. Með vantrauststillögunni neyddist meirihluti þingflokks VG til að éta ofan í sig mörg og stór áður sögð orð um embættisfærslur Sigríðar Á. Andersen.
Bjarni Ben vildi láta sem ráðist væri að Sjálfstæðisflokknum með tillögunni. Þess þarf ekki. Sjálfstæðisflokkurinn er einfær um það. Nú síðast með hreint mögnuðum yfirlýsingum Páls Magnússonar í Kastljósi.
Við munum öll hvað Drífa Snædal, fyrrum framkvæmdastjóri VG, sagði þegar Katrín og Svandís leiddu flokkinn í náið samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Drífa sagði það vera einsog ætla að éta skít í fjögur ár. Og sagði sig úr flokknum.
Þá er spurt. Hver étur nú skítinn? Það gera allir þigmenn Vinstri grænna, nema Rósa Björk og Andrés Ingi. Stjórnmálamenn og flokkar og hafa oft tekið kúvendingar. En kúvending VG er sú svakalegasta sem við eldri munum eftir.
Það hafa orðið vatnaskil. VG hefur misst forystuhlutverk meðal vinstri flokka og fært Samfylkingunni það. Sem virðist hlustar á Pírata og taka eftir framgöngu þeirra á Alþingi. Píratar eru öflugasta stjórnarandstaðan á Alþingi í áratugi.
Vinstri græn kusu ein og sér að ganga þessa leið. Þeim voru allir aðrir vegir færir, en þetta var þeirra val. Á þeim fáum mánuðum sem liðnir eru hefur meira en nóg gerst til að sjá að þau eiga ekki afturkvæmt. Þau hafa gengið of langt.
Sjálfstæðisflokkurinn er hinn eini valdaflokkur á Íslandi. Hann stjórnar og hann einn ræður. Aðrir flokkar lyppast niður í samstarfi við hann. Missa fylgi og trúverðugleika. Nú er eflaust kátt í Valhöll. Það nennir enginn að minnast á Framsókn. Það tekur því ekki.
Sigurjón M. Egilsson.