- Advertisement -

Biggi trommari hættur í Dimmu

„Elsku vinir.

Eftir tæp 8 ár sem meðlimur í þungarokksveitinni DIMMA hef ég tilkynnt félögum mínum að ég vilji ganga af sviðinu og hætta í sveitinni.

Fyrir því eru margar ástæður en aðallega sú að ég vil nota tímann minn í aðra hluti og finnst þetta  ekki lengur eins skemmtilegt og gefandi og áður.

Samhliða Dimmu hef ég starfað sem stjórnandi í ýmsum fyrirtækjum sem og í eigin verkefnum og nú vil ég auka fókusinn á þann hluta lífs míns auk þess að hafa meiri tíma til að eyða með fjölskyldu og vinum.

Næstum allur minn tími hefur farið í þessa hljómsveit síðustu ár og því hef ég ekki haft nógu mikinn tíma til að setja í annað, það er t.d. lítið um sumarfrí með fjölskyldunni eða ferðalög þegar maður er að spila flestar helgar eins og raunin hefur verið hjá Dimmu síðustu árin.

Þetta hefur verið rosaleg keyrsla en nú er ég einfaldlega búinn að fá nóg og vil gera aðra hluti í lífinu. Um leið og manni finnst þetta ekki lengur gaman og fórnin of mikil þá á maður að hætta og þakka fyrir sig.

Það sem byrjaði sem saklaust ferðalag hjá mér í hobbí rokksveit snemma árs 2011 varð að þvílíkri rússíbanareið þar sem við náðum árangri sem okkur grunaði ekki að væri mögulegur. Ég get ekki talið upp alla þessa hundruð tónleika og þær plötur sem við höfum gert en ég veit bara að við höfum gert flest allt sem hægt er að gera í tónlist í þessu landi…og það nokkrum sinnum.

Ég er samt alls ekki hættur að spila á trommur, öðru nær, ég er með nokkur spennandi verkefni í gangi með flottum tónlistarmönnum sem ég er spenntur að vinna í, þannig að ég mun halda áfram að gera tónlist. En ég vil velja verkefnin vel og nota tíma minn sem best.

Ég vil þakka öllu fallega fólkinu sem ég hef hitt í gegnum Dimmu, öllu fólkinu sem hefur sagt mér hvaða þýðingu tónlistin okkar hefur fyrir það , öllu liðinu sem hefur komið á tónleika hjá okkur, öllum tæknimönnunum og sérstaklega okkar elsku Big Bad Mama (Helga Dóra).

Þetta hefur verið alveg ótrúlega skemmtilegur tími og ég er rosalega þakklátur fyrir þessa lífsreynslu.

Að lokum vil ég þakka bræðrum mínum í bandinu, Silli, Ingo og Stefán – takk fyrir mig elsku vinir og gangi ykkur vel – djöfull var gaman!

Takk, Biggi

Ps. Engar áhyggjur, þeir ætla að halda áfram svo að Dimmulestin stöðvast ekki, sem betur fer.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: