- Advertisement -

Biðlistar leysa ekki húsnæðiskreppuna

Rödd fólksins sem er í húsnæðisvanda þarf að komast að borðinu.

Sanna Magdalena skrifar:

Á velferðarráðsfundi í síðustu viku voru rannsóknarniðurstöður á þörfum og væntingum þeirra sem eru í húsnæðisvanda kynntar. Sósíalistaflokkurinn lagði fram tillögu þess efnis í lok júlí 2018 og lagði áherslu á mikilvægi þess að tala beint við fólkið sem er í húsnæðisvanda. Niðurstöðurnar eru sláandi og veita okkur innsýn í stöðu þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í borginni.

Af orðum viðmælenda er bersýnilegt hversu slæmar andlegar afleiðingar það hefur á fólk að þurfa að lifa við slíkt óöryggi, eða eins og einn viðmælandi orðaði með svo átakanlegum hætti: „Maður lifir ekki á voninni. Maður er að verða það gamall; óöryggið er að fara mjög illa í mann. Þegar þú ert hættur að hafa væntingar um að fá íbúð og þú lifir bara í voninni; þá ertu í mjög slæmum andlegum málum. Vegna þess að vonin um að fá ekki neitt er hrikaleg. Og þegar það er búið að bregðast manni fram og til baka þá verður maður hvekktur. Og jafnvel reiður“.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Allir viðmælendur að einum undanskildum sögðust vilja komast í sjálfstæða búsetu. Sex af átta viðmælendum í Gistiskýlinu töldu sig þurfa á búsetu með stuðningi að halda.

Rannsóknin byggir á viðtölum við 14 einstaklinga sem gistu í neyðarskýlunum Gistiskýlinu og Konukoti og rýnihópaviðtölum (hópviðtölum) við samtals 18 einstaklinga sem voru á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð. Samkvæmt viðmælendum í rýnihópunum, höfðu þeir verið að meðaltali fimm ár á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði en meðalbíðtími þeirra sem fengu úthlutað félagslegt húsnæði árið 2018 var 35 mánuðir eða tæp þrjú ár.

Flestir viðmælendur í rýnihópunum bjuggu inni á vinum eða ættingjum, eða leigðu herbergi eða íbúð á almennum leigumarkaði. Staða þeirra sex sem bjuggu hjá ættingjum og/eða vinum var eftirfarandi: 


*Kona býr í herbergi hjá ættingja með ungt barn. Framtíðin óljós þar sem húsnæðið er á sölu. 


*Kona býr hjá ömmu sinni eftir sambandsslit við barnsföður. Er með sameiginlega forsjá yfir tveimur ungum börnum en getur ekki haft þau hjá sér. 


*Kona býr í einu herbergi, með tvo unglinga, hjá móður sinni. Aðstæður slæmar og að hennar sögn ekki viðunandi fyrir börnin. 


*Ung stúlka býr að sögn af „illri nauðsyn“ hjá kærastanum sínum. Að búa inni á öðrum einstaklingi í óheilbrigðu sambandi af „illri nauðsyn“ hefur ekki góð áhrif á andlega líðan. 


*Ungur maður sefur á sófum hjá vinum sínum en þess á milli hjá foreldrum sínum. 
*Viðmælandi sefur á sófa inni í stofu hjá föður sínum.

Að flakka á milli vina og ættingja skapar mikið óöryggi og einn benti á að það væri mikill streituvaldur að vera komin á efri ár og þurfa að vera í eilífu „ströggli“ við að komast í öruggt húsnæði.

Tíu viðmælendur í rýnihópunum sögðust leigja herbergi eða íbúð á almennum leigumarkað og tveir voru að missa íbúðirnar sem þeir leigðu, annar vegna sölu á eigninni og hinn vegna þess að húsnæðið væri óíbúðarhæft. Báðir viðmælendur voru með ung börn og sögðust ekki vita hvert þeir færu í kjölfarið. Einn viðmælandi greindi frá því að leigja 50 fermetra ósamþykkta íbúð í fjölbýli sem hann borgaði háa leigu fyrir og líður ekki vel í íbúðinni.

Áhrif þess að vera ekki í tryggu húsnæði og á biðlista eftir félagslegu húsnæði voru margvísleg, þar kom fram að tíðir flutningar hafa slæm áhrif á börnin, ekki síst að skipta oft um skóla og íþróttafélög. 


*Að búa inni á ættingja stuðlar ekki að þeim heilbrigðu og uppbyggjandi aðstæðum sem börnin þurfa á að halda.


*Óvissa á leigumarkaði er erfið og andleg líðan smitast yfir á börnin. 


*Það hefði mikil áhrif á viðmælanda og börnin að viðkomandi geti ekki haft þau hjá sér. Börnin væru kvíðin og skildu ekki af hverju þau geti ekki búið hjá sér. 


*Húsnæðisaðstæður hefðu haft áhrif á heilsufar dóttur einnar konu sem benti á að húsnæðið sem hún leigði væri óíbúðarhæft vegna myglu og leka. 


*Það væri niðurlægjandi fyrir unglinga að deila herbergi með móður sinni. Það hafi neikvæð félagsleg áhrif en sem dæmi bjóða þær ekki öðrum börnum í heimsókn. 


*Að búa inni á ættingja stuðlar ekki að þeim heilbrigðu og uppbyggjandi aðstæðum sem börnin þurfa á að halda. Alvarleg andleg veikindi séu til staðar vegna aðstæðnanna sem þær búa við og einn viðmælandi benti á að „Það að vera hjá mömmu sinni þýðir ekki endilega að maður sé í öruggu húsnæði“.

Tveir af sex viðmælendum í Konukoti sögðust þurfa á einhvers konar stuðningi að halda í búsetu. Meðal þess stuðnings sem þær töldu sig vanta var fjölþættur stuðningur á borð við andlegan og félagslegan stuðning.

Þegar litið er til helstu niðurstaðna sem komu fram í viðtölum við þá sem gistu í neyðarskýlum kom fram að tólf viðmælendur gistu í neyðarskýlunum vegna heimilisleysis. Viðmælendur höfðu verið heimilislausir frá allt að fjórum mánuðum upp í 15 ár. Allir sögðust hafa gist meira og minna í neyðarskýlunum þann tíma sem þeir hefðu verið heimilislausir. Einnig sögðust viðmælendur hafa gist í bílnum sínum, á áfangaheimili og hjá vinum og ættingjum. Allir viðmælendur að einum undanskildum sögðust hafa leitað sér aðstoðar hjá félagsþjónustunni vegna aðstöðu sinnar. Einnig höfðu viðmælendur notið aðstoðar VOR- teymis velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Allir viðmælendur í Konukoti og fjórir af átta viðmælendum í Gistiskýlinu sögðust vera á biðlista eftir félagslegu húsnæði í sínu bæjarfélagi. Einn viðmælandi var á biðlista eftir að komast í smáhýsi.

Allir viðmælendur að einum undanskildum sögðust vilja komast í sjálfstæða búsetu. Sex af átta viðmælendum í Gistiskýlinu töldu sig þurfa á búsetu með stuðningi að halda. Meðal þess stuðnings sem þeir vildu var hjálp við heimilisþrif og stuðningur vegna fíknivanda. Tveir af sex viðmælendum í Konukoti sögðust þurfa á einhvers konar stuðningi að halda í búsetu. Meðal þess stuðnings sem þær töldu sig vanta var fjölþættur stuðningur á borð við andlegan og félagslegan stuðning.

Húsnæði er ein grunnforsenda velferðar og að þurfa að bíða eftir öruggu húsnæði er engin lausn. Væntingarnar eru skýrar, húsnæðið þarf fyrst og fremst að vera öruggt og heilbrigt. Við getum ekki haldið áfram á þeirri braut að fólk þurfi að bíða og bíða til lengdar eftir húsnæði, slíkt er óboðlegt og það er ekki verið að tryggja þeim 903 einstaklingum og fjölskyldum sem standa að baki umsókna eftir félagslegu leiguhúsnæði öryggi, með því einungis að hafa nafn þeirra á lista.

Læt niðurstöðurnar fylgja með og tillöguna og greinargerðina sem fylgdi með henni.

Tillaga um að kanna væntingar og þarfir einstaklinga í húsnæðisvanda

Lagt er til að Reykjavíkurborg kanni væntingar og þarfir einstaklinga sem eru í húsnæðisvanda í borginni. Til að fá heildstæða mynd af aðstæðum þarf að ræða við fólkið í húsnæðisvanda og eru eigindlegar rannsóknaraðferðir þar hentugar, hvort sem slíkt er t.d. í formi hálfstaðlaðra viðtala eða í rýnihópum.

Greinargerð: Gríðarleg húsnæðiskreppa ríkir í borginni og margir einstaklingar og fjölskyldur eru án húsnæðis og/eða heimilis. Þarfir þessara einstaklinga eru ólíkar og nauðsynlegt er að byggja upp húsnæði í takt við væntingar og þarfir þeirra. Rödd fólksins sem er í húsnæðisvanda þarf að komast að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar og því gríðarlega mikilvægt að kanna hverjar væntingar og þarfir þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði eða annarskonar búsetuúrræði, eru. Þar þarf einnig að kanna væntingar þeirra sem skilgreinast sem utangarðs og hvaða áherslur þeir leggja á í búsetuúrræðum sínum. Væntingar og langanir til húsnæðis eru ólíkar, sumir vilja dvelja í blokk, aðrir ekki, dæmi eru um að einstaklingar vilji dvelja í húsbílum, enn aðrir vilja búa í rými með sameiginlegri aðstöðu, svo dæmi séu nefnd. Í húsnæðisuppbyggingu þarf að taka mið af þessum röddum og er slíkt ómissandi þáttur í að leysa húsnæðisvandann. Þess vegna leggur Sósíalistaflokkurinn til að haft verði samband við þessa einstaklinga og eigindlegar rannsóknaraðferðir notaðar til að kanna væntingar þessara ólíku hópa og einstaklinga.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: