„Sjaldan hafa liðið nema örfá ár fyrr en búið var að skipta þessum plöntum út fyrir einhvers konar plastplöntur.“
Jóhann Pálsson, grasafræðingur og fyrrverandi garðyrkjustjóri Reykjavíkur, segir að öruggara væri að skipta fyrirhuguðu pálmum út fyrir pálma úr plasti eða einhverju öðru strax í byrjun. „Nú ef efniviðurinn væri nógu traustur mætti sleppa glerhjúpnum og sparaðist mikið með því og pálmarnir sæjust betur. En ósköp held ég nú samt að tveir pálmar geri lítið á stóru torgi,“ skrifar hann í grein sem Mogginn birti í dag.
Jóhann bendir á að pálmar hafa þróast í hlýju loftslagi þar sem árstíðasveiflur eru ekki miklar. „En við Íslendingar höfum mikla reynslu í að hita upp híbýli okkar svo vafalaust getum við hitað upp glerturnana. Pálmarnir hafa líka rætur og jarðvegurinn þarf að hafa viðunandi hitastig svo líklega þurfum við að ganga frá einhverri hitaveitu neðanjarðar. Þá er það birtan, ef til vill nægir hún yfir sumarmánuðina, ef hún verður ekki of sterk. Í flestum gróðurhúsum þarf að skyggja með gardínum eða málningu á glerið yfir hásumarið en á veturna er varla nokkur gróður sem þrífst án þess að hafa aðra birtugjafa en sólarljósið. Eins og aðrar plöntur þurfa pálmar að anda. Það er nóg af súrefni á Íslandi en þeir anda frá sér koltvísýringi og raka. Eldra fólk minnist þess að áður en farið var að hafa tvöfalt gler í gluggum skrýddust gluggar skrautlegum frostrósum á veturna en vafalaust hafa hönnuðir séð lausnir á öllum þessum vandamálum.“
Þekking Jóhanns getur ekki virkað sem hvatning fyrir það fólk sem vill fá pálmatré í Vogabyggð.
Jóhann bendir einnig á þetta:
„Arkitektar hér á landi og víðar á Norðurlöndum hafa löngum leitast við að gera ráð fyrir pálma- og trjálundum inni í stórum rýmum í byggingum sem þeir hanna. Vildu þeir með því gera umhverfið hlýlegra. Sjaldan hafa liðið nema örfá ár fyrr en búið var að skipta þessum plöntum út fyrir einhvers konar plastplöntur.“