Berrassaður kapítalismi
Gunnar Smári skrifar:
Það er girt niður um kapítalismann á mörgum vígstöðvum þessa dagana, hér afhjúpar Hafnarháskóli og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að erlend fjárfesting, sem haldið hefur verið fram að sé fádæma eftirsóknarverð og ríkjum mikilvæg að laða til sín, jafnvel að móta fjármálastefnu sína kringum þau markmið af fá sem mest af erlendri fjárfestingu; að erlend fjárfesting, eins og hún hefur verið skráð hingað til, er að stórum hluta tæki stórfyrirtækja til skattsvika og kemur í raun venjulegu atvinnulífi ekkert við; tilheyrir í raun sívaxandi skuggahagkerfi heimsins sem er orðið fjórða stærsta hagkerfi heims og vex hraðar en öll önnur. Talið er að hátt í milljón milljarðar króna (skrifað svona með tölustöfum 1.000.000.000.000.000) séu svona innantóm erlend fjárfesting sem hefur engan tilgang annan en að lækka skatta stórfyrirtækja.
Þetta er svo geggjaðar upphæðir, ránsfengurinn sem flæðir inn og út úr hulduheimum skuggahagkerfsins, að það er ekki fyrir nokkurn mann að skilja stærðina. 15 þúsund milljarðar Bandaríkjadollar eru rétt tæplega 1/6 af heimsframleiðslu eins árs. Hér er því haldið fram að svona gervifjárfesting milli landa, sem ekki er hugsuð til annars en að svíkja undan skatti dragi í gegnum sig svo til, sjöttu hverja krónu. 15 þúsund milljarðar dollara eru um það vil 2055föld ríkisútgjöld á Íslandi. Ef 15 þúsund dollarar eru einn sólarhringur, sú upphæð sem falin er sem gervifjárfesting, þá eru útgjöld ríkissjóðs á Íslandi 42 sekúndur.
Stjórnvöld sem hafa það að markmiði að auka erlenda fjárfestingu og ýta undir hana með allskyns fríðindum, skattaafslætti og veikingu eftirlits og kvaða á atvinnurekstur eru auðvitað samsek þessu ástandi. Eins og t.d. síðustu átján ríkisstjórnir á Íslandi, eða svo.