Berjist af afli gegn yfirgangi Bandaríkjanna
Það er aldrei sómasamlegt að skipa sér í flokk með haukunum í Washington. Þeir eru hættulegustu hryðjuverkasamtök í heimi.
Gunnar Smár skrifar:
Ég hef rekist á þann áróður hér á Facebook að þau sem ekki styðja tilraunir haukanna í Washington að ná undir bandaríska auðkýfinga olíuauðlindum Venesúela séu með því að lýsa yfir stuðningi við stjórn Maduro. Ekki láta veiða ykkur í þessa gildru. Berjist af afli gegn yfirgangi Bandaríkjanna, á sama hátt og þið gerðuð þegar haukarnir í Washington réðust inn í Írak, sprengdu Líbýu aftur á steinöld, kveiktu borgarastyrjöld í Jemen, steyptu ríkisstjórnum víða um heim, studdu herforingjastjórnir og einræðisherra, létu sprengjum rigna yfir Laos, háðu stríð gegn Víetnam og svo áfram endalaust.
Þau sem styðja þessa grimmd eru ekki stuðningsfólk mannréttinda og lýðræðis, þau styðja ætíð vald hins sterka í kúgun hans á hinum veiku. Við vorum á móti árásum á Líbýu án þess að vera stuðningsfólk Gadaffi, við vorum á móti innrásinni í Írak án þess að vera stuðningsfólk Saddam og við erum á móti innrás Bandaríkjanna inn í Íran án þess að vera stuðningsfólk klerkastjórnarinnar þar. Og reynslan af ömurlegum afleiðingum af inngripum bandaríkjastjórnar og bandaríkjahers í stjórnmál fjarlægra þjóða sýnir að við höfðum rétt fyrir okkur.
Það er aldrei sómasamlegt að skipa sér í flokk með haukunum í Washington, þeir eru hættulegustu hryðjuverkasamtök í heimi, þau samtök sem hafa flest mannslíf á samviskunni og hafa eyðilagt flest samfélög. Eina sómasamlega staða fólks á Vesturlöndum er að lýsa yfir andstöðu við ráðagerðir þessa hóps og andmæla tilkalli hans til þess að geta ráðgast með heimsbyggðinni, gripið inn í hvar sem er og einkum þar sem færi er á að valda glundroða og í skjóli hans að ná auðlindum fjarlægra þjóða undir bandaríska auðkýfinga.
Ég er alfarið á móti afskiptum ríkisstjórnar Trump af innanríkismálum Venesúela. Það eru allir hæfari og líklegri til að láta gott af sér leiða í átökunum innan Venesúela. En þótt ég styðji ekki utanríkisstefnu Trump og yfirgang bandaríkjastjórnar þá er ekki sérstakur stuðningsmaður Maduro. Ekki frekar en ég hafi verið stuðningsmaður Gadaffi eða Saddam.
Ekki láta veiða ykkur inn í gildru haukanna í Washington og samþykkja að þeir séu fulltrúar mannréttinda og lýðræðis; fólk sem ætti að vera á sakabekk bæði í alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum (sem Bandaríkjastjórn viðurkennir ekki) og mannréttindadómstóli Ameríkuríkja (sem Bandaríkjastjórn viðurkennir ekki). Bandaríkin hafa sömu stöðu og Súdan í samfélagi þjóðanna, viðurkenna ekki lögsögu neins yfir sér, vilja fremja sína stríðsglæpi og mannréttindabrot í friði fyrir afskiptum annarra, pynta fólk og myrða án afskipta. Ríkisstjórn annars lands, sem beygir sig undir forystu slíkra manna í alþjóðamálum, er um leið að segja að aflið eigi ætíð að vega meira en mannréttindi, sjálfsákvörðunarréttur og líf saklausra.
Því miður sitja í ríkisstjórn Íslands flokkar sem allir hafa á síðustu árum stutt glæpi haukanna í Washinton. Ráðherrar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks studdu innrásina í Írak sem kallað hefur endalausar hörmungar yfir Írak og löndin í kring, hörmungar sem enn sé ekki fyrir endann á enda var innrásin leið haukanna í Washington til að ná fótfestu á svæðinu og tryggja að þar ríkti glundroði eins lengi og tæki að tæma olíuauðlindirnar. Og ráðherrar VG, þ.m.t. Katrín og Svandís, studdu árásirnar á Líbýu, sem brutu það samfélag algjörlega niður svo nú drottna þar glæpagengi yfir fólkinu á meðan olíuauðinum er stolið. Þessi grimmd forystu flokkanna er í algjöri andstöðu við vilja flokksmanna. Um 90 prósent landsmanna var andsnúin stuðningi íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak og þjóðin fylgdist með hryllingi með því ofbeldi sem framið var í hennar nafni, bæði í Írak og í Líbýu. Ráðherrarnir sem stóðu að þessu hafa ekki beðist afsökunar. Þeir hafa ekki endurskoðað afstöðu sína. Enn á ný, eins og sést í undirgefni þeirri við stefnu John Bolton gagnvart Venesúela sýna þeir að samstaða þeirra með haukunum í Washington skiptir þá meira máli en að utanríkisstefna Íslands endurspegli vilja þjóðarinnar, sem er vopnlaus og friðsöm og hefur andstyggð á ofbeldi hins sterka gegn hinum veika.