Berjast við Georg Bjarnfreðarson
„Alvarleg árás á atvinnurekendur,“ segir forystufólk kaupmanna.
Margrét Sanders og Andrés Magnússon, formaður og framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, skrifa grein í Moggann þar sem þau eru ósátt við Georg Bjarnfreðarson, eða réttara sagt auglýsingar VR, þar sem Georg er í aðalhlutverki.
„Þó að mörgum þyki þessar auglýsingar með þeim hætti að þær nái að kitla hláturstaugar hjá fólki er undirtónn þeirra og þau skilaboð sem þær senda mjög alvarleg árás á atvinnurekendur almennt. Ef kaupmaðurinn á horninu, sem er aðalpersónan í auglýsingunum, er gott dæmi um „skúrkinn“ á íslenskum vinnumarkaði þá er sú lýsing okkur mjög framandi. Í það minnsta væri áhugavert að þeir aðilar sem standa að slíkri aðför standi keikir með staðreyndir að vopni í stað almennra alhæfinga um atvinnurekendur upp til hópa,“ segir meðal annars í grein þeirra.