Bergþór skýtur fast á Svandísi
Bergþór Ólason, þingflokksformaður tveggja manna þingflokks Miðflokksins, skýtur föstu skoti að Svandísi Svavarsdóttir. Ástæðulaust er að birta hér alla Moggagrein Bergþórs. Seinni hluti hennar er svona:
„Á sama tíma og allar þessar aðstæður ættu að bjóða eðlilegt líf fyrir fólk hér á landi stöndum við frammi fyrir því, aftur, að fólki sé meinað að njóta jólanna með ástvinum sínum í nafni sóttvarna. Nú eru hins vegar flestir þeirra sem hnepptir eru í varðhald, þ.e. sóttkví eða einangrun, fullfrískir eða finna fyrir „léttum flensueinkennum“. Þegar þetta er skrifað eru ellefu á sjúkrahúsi og tveir á gjörgæslu, 2.449 í sóttkví og 1.724 í einangrun.
En þetta er ekki heimsfaraldrinum að kenna heldur lélegri stjórn heilbrigðismála undanfarin tvö ár, frá því faraldurinn hófst. Fátt hefur verið gert til að auka getu spítalans til að taka á móti þessum alvarlegu veikindatilfellum. Rúmum hefur ekki fjölgað og fráflæðisvandi spítalans hefur ekki verið leystur. Því fé sem veitt var til Landspítalans, umfram það sem áður var, virðist ekki hafa verið varið til að leysa brýnasta vandann er viðkemur Covid-19, á þeirri stöðu ber fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem enn situr í ríkisstjórn, fulla ábyrgð.
Það hefur kannski gleymst í öllu atinu hjá okkar ágætu ráðherrum að það er grafalvarlegt mál að læsa fólk inni. Fólk sem er ekki einu sinni veikt. Fólk sem hefur ekkert gert af sér annað en að fylgja öllum leiðbeiningum, boðum og bönnum stjórnvalda í heimsfaraldri – bólusett sig ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þrisvar undir því loforði að þá getum við horfið aftur til eðlilegs lífs.“