- Advertisement -

Ber verkafólk ábyrgð á falli krónunnar?

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Jæja, nú eru allir lobbíistar efnahagslegu forréttindahópanna kallaðir upp á dekk því það er gríðarleg „vá“ fyrir dyrum, jú kjarasamningar verkafólks eru að losna um áramótin. En í þessari frétt segir forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands að ótti sé um að komandi kjarasamningar fari úr böndunum og það sé meginskýringin á skarpri gengislækkun krónunnar undanfarið. „Við höfum ekki séð svona sverar kröfugerðir frá verkalýðsfélögunum lengi,“ segir Ásgeir Jónsson í samtali við Fréttablaðið.

Jæja, nú ætlar þessir snillingar að kenna íslensku verkafólki að krónan sé í frjálsu falli og það áður en viðræður um nýjan kjarasamning hefjast.

Hins vegar er rétt að minna alla á að Ásgeir Jónsson var einn af greiningarstjórum föllnu bankanna eða nánar tilgetið hjá Kaupþingi fyrir hrun. Ætlar gamli greiningarstjórinn kannski að kenna íslensku verkafólki um að hér varð bankahrun?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ásgeir segir einnig í þessu viðtali orðrétt: „Sagan kennir okkur að í hvert sinn sem laun eru snarhækkuð um tugi prósenta fellur gengið og verðbólgan fer úr böndunum. Eldri kynslóðir í verkalýðshreyfingunni voru farnar að átta sig á þessu samhengi en nú virðist vera komin fram ný kynslóð verkalýðsleiðtoga sem virðist ekki gera sér grein fyrir þessu.“

Gamli greiningarstjórinn varar við

Svíður gamla greiningarstjóranum að ný verkalýðshreyfing skuli voga sér að gera kröfu um að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út þannig að lágtekjufólk geti náð endum saman frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn?

Já, gamli greiningarstjóri Kaupþings varar við því að nú sé komin ný forysta í verkalýðshreyfingunni sem vogar sér að krefjast þess að lágmarkslaun hækki úr 300.000 krónum í 425.000 krónur á þremur árum.

Mitt mat er að þetta er hógvær krafa en það heyrðist hins vegar ekkert í gamla greiningarstjóranum þegar forstjórar og embættismenn ríkisins hækkuðu sín laun frá 400.000 upp í 1,2 milljónir á mánuði í fyrra, en að fara fram á 42.000 króna hækkun á mánuði handa alþýðunni þá á allt að fara til fjandans.

Óþolandi lukkuriddarar

Þessir lukkuritarar forréttindahópanna eru orðnir óþolandi og þeim þarf að svara fullum hálsi. Það liggur fyrir að margir eigendur fyrirtækja greiða sér ekki bara ágæt laun heldur taka þeir einnig út tugi ef ekki hundraði milljóna út í arðgreiðslum á hverju ári enda liggur fyrir að fjármagnstekjur þeirra ríku námu yfir 153 milljörðum árið 2017.

Ekki orð um það frá þessum lobbíistum elítunnar hvorki um gríðarlegar fjármagnstekjur né gríðarlegar hækkanir efrilaga samfélagsins. Þessi gríðarlega sjáftaka efrilaga samfélagsins virðast aldrei hafa neinar afleiðingar í för með sér, bara launahækkanir verkafólks.

Það liggur t.d. fyrir að 20 hæstu einstaklingarnir á Íslandi fengu 21,5 milljarð í fjármagnstekjur á ári 2016 og það þarf 71.666 verkamenn á lágmarkslaunum til að ná þeirri upphæð!

Lugu blákalt

Það er rétt að rifja upp gamalt viðtal við Ásgeir Jónsson, fyrrverandi greiningarstjóra Kaupþings og Ingólf Bender, sem tekið var við þá í maí 2008, fimm mánuðum fyrir hrun bankanna, til að sjá hversu trúverður einstaklingur hann er, en þar sagði Ásgeir sagði meðal annars að það væri hálfgerð hystería í gangi um að bjarga þyrfti bönkunum. Hystería? Halló það lá fyrir tveimur árum fyrir bankahrunið að viðskiptabankarnir þrír myndu falla.

Hvað skyldi fyrrverandi greiningarstjóri Kaupþings segja núna yfir þessum ummælum sínum frá því í maí 2008 að það væri hystería í gangi um að bjarga þyrfti bönkunum.

Við vitum öll hvað gerist 5 mánuðum seinna en þá voru allir viðskiptabankarnir þrír gjaldþrota sem hafði skelfilegar afleiðingar fyrir allan almenning þar sem 500 milljarðar töpuðust af lífeyrir launafólks og 10 þúsund heimili yrðu m.a. gjaldþrota.

Nei þessi skefjalausi hræðsluóróður um að allt fari til fjandans ef hlutur lágtekjufólks verði réttur af er óþolandi og ólíðandi. Ég segi bara við íslensk verkafólk búið ykkur undir hörð átök á íslenskum vinnumarkaði því það er komin tími til að svara þessari forréttindaelítu af fullum krafti!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: