Benedikt Erlingsson skrifaði:
„Fæ ónotatilfinningu við tilhugsunina um að sitjandi forsætisráðherra bjóði sig fram til forseta.
Og samt er núverandi forsætisráðherra hin geðþekkasta manneskja.
En afhverju þá? Af hverju þessi ónot ef ekki beinlínis hneykslan.
Kannski þyrfti ég að panta tíma hjá sálgreininum mínum og láta gamminn geysa. Þar fengi ég ef til vill hjálp til að sjá að þessar tilfinningar mínar snúast kannski bara um samband mitt við móður mína en ekki um þennan stjórnmálamann og hans ambisjónir.
En ef ég fengi tíma þá myndi sálgreinirinn minn líklega þegja í góða stund og bíða eftir að ég segði eitthvað.
Og að lokum myndi ég hefja rantið.
Sko…ef maður á að bera saman þessi tvö embætti þá er það ótvírætt að sá sem vill þjóna landi og þjóð og gera gagn er í miklu betri stöðu til þess sem forsætisráðherra heldur en forseti.
Því ef þú vilt raunverulega láta gott af þér leiða í gegnum pólitík og færa þær miklu fórnir sem það kostar, þá ertu í betri stöðu til þess sem handahafi framkvæmdavaldsins með marga putta í löggjafarvaldinu heldur en þjóðkjörinn, táknrænn menningarprestur með málskotsrétt.
Skrifstofan í Hegningarhúsinu við Lækjargötuna er Staðurinn með stóru Essi.
Það er að segja ef þú hefur hugsjón og vilt láta verkin tala.
Sálgreinir: Já, og afhverju ertu að segja mér þetta? Hvað meinarðu?
Sko…Af hverju ætti auðmjúk og þjónandi manneskja eins og Kata Jak að vilja segja af sér sem forsætisráðherra, slíta ríkisstjórn og hverfa frá hálfkláruðu verki, yfirgefa félaga sína í miðjum slagnum fyrir þessi bítti? Ganga af engjum í miðjum slætti til að halda skálaræður í veislusölum.
Og hverjir eru það sem hvísla því í eyru stjórnmálamanns að nú sé mál að hætta að láta verkin tala og stíga heldur uppí predikunarstól og reyna þaðan að hafa áhrif á fólk með tali, brosi og ræðuhöldum. Hvaða sæmilega jarðtengdi stjórnmálamaður gefur eyra slíkum ráðum?
Það er einhvernveginn æpandi að sá sem býður sig fram úr þessari stöðu er ekki að gera það af pólitískum ástæðum heldur hégómlegum. Eða hvað?
Er eitthvað sem ég ekki sé?
Hver er hugsjónin að baki því að stíga út stóli forsætisráðherra og vilja heldur vera valdalítill forseti með málskotsrétt, fá mikið hoss en hafa takmarkaða ábyrg.
Geta verið einhverjar göfugar og fornfúsar hvatir þar að baki?
Og hefur núverandi forsætisráðherra einhverju að miðla til okkar sem predikari?
Einhverju sem hún hefur ekki náð að koma til skila í sinni háu valdastöðu síðasta áratuginn?
Er þetta ekki einhver hégómi?
Þessi spurning fengi líklega að hanga í loftinu í töluverðan tíma áður en sálgreinirinn minn myndi spyrja: Og hvar í líkamanum sitja þessar tilfinningar?
Þessi skrýtna ónotatilfinning, þessi hneykslun eins og þú orðaðir það?
Og eftir dálitla stund myndi ég svara.
Mitt á milli magans og hjartans.“