Benedikt ljósárum á undan Bjarna
Björn Leví Gunnarsson segir „leikrit“ vera viðhöfð í þingnefndum. Segir Benedikt hafa svarað þingmönnum hrokalaust. „Ég sakna þess úr embætti fjármálaráðherra.“
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata,var nokkuð sáttur með störf Benedikts Jóhannessonar, fyrrverandi fjármálaráðherra og fyrrverandi formanns Viðreisnar.
„Benedikt gerði fína hluti sem ráðherra og er ljósárum betri en núverandi ráðherra,“ skrifar Björn Leví.
„Ég skal meira að segja taka að hluta til undir lof þingmanna Viðreisnar á störf hans, heilt kjörtímabil af fleiri gagnsæismálum hefðu held ég gert hann að besta fjármálaráðherra sögunnar ef önnur mál myndu ganga vel á sama tíma.“
Björn Leví skrifar meira: „Nóg um það, eitt sem hann sá kannski ekki er að það er líka leikrit í nefndum. Stundum er nefndarstarfið bara að vinna sig í gegnum tékklista af „umsagnir bárust, gestir komu, en það skiptir ekki máli hvað þau segja við afgreiðum (eða ekki) málið óháð því“.“
„En Benedikt mætti í þingsal, svaraði spurningum og gerði það hrokalaust og af fagmennsku en ekki pólitík (jú, kannski smá pólitískri hugmyndafræði). Ég sakna þess úr embætti fjármálaráðherra.“