Benedikt Jóhannesson skrifaði:
Í morgun sendi ég eftirfarandi tilkynningu til félaga minna í Viðreisn:
Undanfarna daga hef ég spjallað við allmarga flokksmenn um landsþingið sem hefst í næstu viku og lýkur einhverntíma í vor. Nokkrir hafa spurt mig hvort ég ætli að bjóða mig fram til formanns eða varaformanns. Mér þykir auðvitað vænt um spurninguna, en í stað þess að leggjast undir feldinn fræga hef ég svarað því að ég hyggist áfram gefa kost á mér til stjórnar flokksins.
Aftur á móti finnst mér rétt að segja frá því á þessum vettvangi, að ég sækist eftir því að skipa oddvitasæti á lista Viðreisnar á suðvesturhorninu í kosningunum á næsta ári. Ég hef sagt nokkrum frá áformum mínum, en þetta er ekki ný ákvörðun.
Þegar ég leiddi listann í Norðausturkjördæmi árið 2016 hugsaði ég það þannig, að ef flokkurinn ætti að geta komið að stjórnarmyndun yrðum við að ná þingsætum í dreifbýlinu og leggja talsvert undir. Formaðurinn reyndi fyrir sér í Norðausturkjördæmi og varaformaðurinn, Jóna Sólveig Elínardóttir, í Suðurkjördæmi. Bæði náðu kjöri.
Nú hafa aðstæður gerbreyst. Árin undir núverandi ríkisstjórn eru óhagstæð okkar meginbaráttumálum. Popúlistar sækja fram og ná þingsætum.
Viðreisn hefur verið meginverkefni mitt allt frá árinu 2014. Það hefur verið gæfa mín að starfa þar með mörgu afbragðsfólki. Ég vil enn stuðla að því að málstaður Viðreisnar eflist og flokkurinn verði í aðstöðu til að mynda ríkisstjórn að ári.
Aðeins þannig er von til þess að sækja í frelsisátt, sem gerist ekki nema við náum mjög góðum árangri á Suðvesturhorninu. Ég nýt mín best þar sem baráttan er hörðust og vona að ég njóti trausts til að vera í fremstu víglínu.