Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, gerir lítið úr umræðu um fátækt. Hann skrifar í Mogga dagsins samantekt um rangindi sem Donald Trump hefur orðið uppvís að og notar þær samantektir til að hnýta í fátæka Íslendinga.
„Íslendingar hljóta samt að rökræða út frá staðreyndum. Skattbyrði þeirra 10% sem hafa lægst laun er meiri núna en þeirra tekjuminnstu fyrir 20 árum, svo dæmi sé tekið. Skýringin er sú að laun eru almennt hærri núna en þau voru fyrir 20 árum að raungildi. Ættum við að fella niður skatta af lægstu launum, ef allir væru komnir með að minnsta kosti milljón á mánuði?“
Þarna lokar ráðherrann fyrrverandi augunum fyrir staðreyndum um hvernig skattbyrði hefur taktfast á ákveðið verið færð frá Benedikt og öðru efnafólki yfir þá sem minnst hafa.
„Samkvæmt nýjustu lífsgæðakönnun Hagstofunnar árið 2014 líða tæplega 8% barna skort á efnislegum gæðum, ekki fjarri sex þúsund börnum. Hvenær á áratugnum þar á undan sögðust fæstir hafa það svo slæmt? Ekki árið 2007 heldur árin 2008-9. Þegar verst áraði gerðu svarendur minnst úr erfiðleikum sínum.“
Nú er sama hversu jákvæðir lesendur greinarinnar geta verið. Ekki verður hjá því komist að hann segi nánast blákalt að ekki sé fátækt á fólki. Heldur sé fólkið óþarflega vælið og kvarti af ástæðulausu.