Þegar Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra sagði, í samtali í Bítinu á Bylgjunni, að það hafi verið siðlaust hjá Alþingi að samþykkja samgönguáætlun án þess að búið væri að tryggja peninga til þess, heldur áfram að draga dilk á eftir sér.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði á þingi í gær:
„Í viðtali á Bylgjunni nú í vikunni var hæstvirtur fjármálaráðherra spurður að því hvernig stæði á því að samgönguáætlun væri ekki fjármögnuð. Hæstvirtur ráðherra sagði þá að það væri siðlaust af Alþingi að samþykkja samgönguáætlun sem ekki væri fjármögnuð.“
Katrín sagðist hafa talið að það væri verkefni nýrrar ríkisstjórnar að fylgja eftir samþykktum Alþingis fremur en að fara með slíkum svigurmælum, einsog hún orðaði það, sem Alþingi getur ekki setið þegjandi og hljóðalaust undir. „Það má öllum vera ljóst að ef þessi ummæli hæstvirts ráðherra standa óbreytt gagnvart Alþingi er það grafalvarlegt. Ég vil því spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann vilji ekki nýta tækifærið í þessum stól til að endurskoða þessa afstöðu sína og taka þessi orð sín um siðleysi löggjafarsamkundunnar til baka.“
Benedikt leiðist uppnámið
Benedikt Jóhannesson sagði, í upphafi, að sér þætti leitt hversu miklu uppnámi orð hans hafa valdið. „Sérstaklega þegar ég heyri umræður þar sem menn virðast kannski vera að mestu leyti efnislega sammála í málinu og umræðan snýst að mestu leyti um orðalag.“
Undir hvers stjórn er Alþingi?
Katrín Jakobsdóttir sagði að nú liggi fyrir að Benedikt finnst í lagi að kalla löggjafarsamkunduna siðlausa. „Þá liggur það bara fyrir.“
Katrín beindi spurningu til Benedikts vegna annarra orða úr sama viðtali. Þar sagði hann þingið hafa verið stjórnlaust þar sem ekki hafi verið ríkisstjórn með meirihluta, það er á þeim tíma þegar fjárlög voru samþykkt. „Í þessu sama viðtali segir hæstvirtur ráðherra það.“
Og hún spurði: „Er það skoðun ráðherrans að ríkisstjórnin stjórni Alþingi og ef ekki sé ríkisstjórn með meirihluta á bak við sig sé Alþingi stjórnlaust? Er þá Alþingi undir stjórn núna? Og undir stjórn hvers?“
Hef ekki sagt Alþingi siðlaust
Benedikt Jóhanensson sagðist halda að mikilvægt sé að sýna Alþingi virðingu. „Ég held að það sé mikilvægt að það komi fram að ég hef ekki sagt að Alþingi sé siðlaust. Það er auðvitað sitt hvað að segja að eitthvað gerist nánast eða gerist. Ég drukknaði nánast á afmælisdeginum mínum. Drukknaði ég? Nei. Ég drukknaði ekki. Ég lenti nánast í árekstri. Lenti ég í árekstri? Það gerði ég ekki. Þetta er grundvallarmunur.“