Leiðari Þar kom að því. Aumara getur það varla orðið. Skjólshús Sjálfstæðisflokksins og félaga í flokknum um barnaníðinga skipti sköpum.
Leyndartilraun dómsmálaráðherra og aðkoma forsætisráðherra að þeirri ömurlegu leikfléttu reið baggamuninn. Hinir, til þessa, þægu meðflokkar hafa látið margt yfir sig ganga. Nú er komið nóg segja þeir. Eftir á að skýrast um annað sem gengið hefur á.
Í gær var fullyrt á þessum stað að breytingar væru framundan. Þær hafa orðið. Ljóst er að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tekur stjórnarslitunum sem miklu áfalli. Honum er brugðið.
Sigríður Á. Andersen sagði rétt í þessu að hún undrist viðbrögð Bjartrar framtíðar, að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.
Davíð Oddsson, fyrrverandi svo margt og núverandi yfirpenni, hefur flokkað fólk. Hann flokkar sig og sína líka í hóp fyrirmenna. Þar eru að sjálfsögðu innmúraðir og innvígðir. Nú hafa fyrirmenninn gengið of langt. Ríkisstjórn Bjarna Benediktsson er fallin.
Sigurjón M. Egilsson.