„Tökum annað dæmi, virðulegi forseti, sem er hið meinta barnabótaátak ríkisstjórnarinnar. Það fylgir ekki sögunni þegar milljarðarnir eru taldir upp í samhengisleysi eins og ítrekað er gert, að umræddar tölur eru við það að fuðra upp í verðbólgu. Staðreyndin er þessi: Útgreiddar barnabætur á næsta ári verða í raun sögulega lágar. Í hlutfalli við landsframleiðslu hafa barnabætur ekki verið lægri á þessari öld,“ sagði Kristrún Frostadóttir meðal annars í þingræðu um fjárlagafrumvarpið.
„Framlagið sem stjórnarliðar stæra sig af heldur ekki í við verðbólguna sem ríkisstjórnin treystir sér ekki til að taka á. Í Danmörku eru barnabætur um 0,8% af landsframleiðslu, um 0,6% í Finnlandi og Svíþjóð. Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar, sem eiga að umturna barnabótakerfinu á Íslandi, er framlagið 0,35% af landsframleiðslu. 0,35%, virðulegi forseti, sem er lægsta hlutfallið á öldinni og langt frá því að vera umfang sem hægt er að stæra sig af. Þetta er í engu samhengi við það sem þekkist á Norðurlöndunum og án þessarar aðgerðar núna hefði hlutfallið hrunið. Þetta er í besta falli björgunaraðgerð til að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin gangi endanlega frá barnabótakerfinu.“
Kristrún bætti við:
„Staðreyndin er sú að þetta barnabótaútspil hefur frá upphafi verið bókhaldsbrella. Mörgum milljörðum var skellt fram í fjölmiðlum án samhengis. Fyrst var þetta 5 milljarða kr. viðbót við kerfið. Svo kom í ljós að í raun voru þetta bara 2 milljarðar til viðbótar því að ríkisstjórnin hafði reiknað sig niður á fjölda fjölskyldna sem hefði verið hent út úr kerfinu vegna úreltra skerðingarmarka og kynnti það sem ákvörðun, að halda þeim inni í kerfinu. Þar fundust 3 milljarðar.
Ríkisstjórnin hefur með öðrum orðum skapað væntingar langt umfram raunveruleikann um að styrkja eigi barnabótakerfið miðað við núverandi stöðu. En þetta mun fólk auðvitað átta sig á og er búið að átta sig á þegar það sér að upphæðirnar detta ekki í hús.“