Barlómur bankastjórans
Ef ríkisstjórnin væri ekki á bandi braskaranna ætti hún að taka þetta viðtal sem varúðarflaut og gera allt öfugt við það sem þessi maður biður um.
Gunnar Smári skrifar: Hér kvartar bankastjóri yfir að arðsemi eigin fjár bankans hans sé ekki nema 18,5 prósent (það tekur eigendur bankans fimm ár á tvöfalda eigur sínar, fimmtán ár að tífalda þær og 28 ár að hundraðfalda þær), að hann fái ekki bónusa eins og fyrir Hrun og íslenskt stjórnvöld skuli leggja hærri eiginfjárkröfu á íslenska banka en í útlöndum; maðurinn hefur gleymt því að íslenskir bankar hrundu yfir almenning fyrir tæpum tíu árum.
Skrítin gleymska því þessi sami maður var einn af lykilmönnunum í að byggja upp það bankakerfi sem þá hrundi. Nú vill hann leiðbeina okkur um hvernig byggja á upp banka.
Um daginn bjargaði hann eigendum Gamma, sem höfðu spilað sig inn í lausafjárvanda í spilavítiskapítalismanum, reyndi að laga Kviku með því að þenja þann banka upp með auknum umsvifum og veðja á áframhaldandi vöxt.
Þegar hlutabréfamarkaðurinn frís og augljóslega er að draga úr gróða í spilavítinu þá kemur hann vælandi og vill að skattborgarar lækki skattana á bankana (svo hann geti borgað sér og eigendunum meira) og að eiginfjárkrafan verði lækkuð svo hann geti aukið enn áhættuna í rekstrinum og farið fyrr á hausinn.
Ef ríkisstjórnin væri ekki á bandi braskaranna ætti hún að taka þetta viðtal sem varúðarflaut og gera allt öfugt við það sem þessi maður biður um; hækka eiginfjárkröfuna, setja harðari reglur um bónusgreiðslur og hækka skatta á banka til að gera svo mætt falli þeirra innan tíðar.