Bara verðlaunað miðsvæðis í borginni
„Flokkur fólksins vill aftur gera athugasemd við liðinn Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2019 vegna sömu atriða og 2018. Enn virðist ekki hægt að veita fegrunarviðurkenningu húsum utan ákveðins miðsvæðishrings. Hvað með hverfi eins og Skerjafjörð, Breiðholti, Árbæ og Grafarvog?“
Þetta er texti úr bókun Kolbrúnar Baldursdóttur, Flokki fólksins, í borgarráði.
„Sérstaða húsa í miðborg og nærliggjandi hverfum er mikil sökum aldurs. Það er því ekkert óeðlilegt að mörg þeirra húsa og lóða sem fá viðurkenningar eru staðsett þar,“ segir svo í bókun meirihlutans.
Kolbrún segir ekki rétt að í hvert sinn sem borgin veitir viðurkenningu af hvers lags tagi skuli leitað vítt og breitt en ekki einblína á eitt svæði eða tvö. „Á það skal bent að víða í úthverfum borgarinnar er verið að endurgera og endurnýja hús sem hefðu vel getað komið til greina við ákvörðun á fegrunarviðurkenningu borgarinnar,“ segir hún.
Meirihlutinn bókaði: „Hins vegar er einnig mikið af fallegum endurbótum í öllum hverfum og er öll Reykjavík til skoðunar þegar nefndin þarf að velja hús og lóðir sem eiga skilið Fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar.“
Katrín: „Vel mætti fjölga þessum viðurkenningum þar sem enginn kostnaður felst í því nema að kaupa blómvönd. Að veita svona viðurkenningu er hvatning fyrir fólk og ekki ætti endilega að leggja áherslu á að húsin hafi einhverja sérstaka sögu eða flokkist undir einhvern frægan byggingarstíl. Hugmynd Flokks fólksins sem hér er lögð fram í bókun er að velja mætti eitt hús í hverju hverfi til að veita viðurkenningu.“
Og þá meirihlutinn: „Það myndi missa marks að binda hendur valnefndar við að þurfa að velja eitt hús í hverju í hverfi og er henni treyst til að gæta jafnræðis og vera fagleg í sínum störfum og velja út frá þeim línum sem eru lagðar og henni ber að vinna eftir.“