Bara vegna þess að Mogginn segir það?
Gunnar Smári skrifar:
Sósíalistar eru komnir í þá stöðu í Suðurkjördæmi að aðeins Framsókn og Sjálfstæðisflokkur, og líklega Miðflokkur, er stærri, svo nemur meira en vikmörkum.
Svona er fréttaflutningurinn oft í kosningabaráttunni. Þarna er Sósíalistaflokkurinn með 7,9% í Suðurkjördæmi, sem er náttúrlega mikið afrek fyrir nýjan flokk í stóru kjördæmi í samkeppni við flokka sem hafa ausið fé í eigin vasa úr ríkissjóði. Sósíalistar eru með meira fylgi í kjördæminu en Píratar og Flokkur fólksins (sem þó er oft spáð kjördæmakjörnum manni þarna), jafnt mikið fylgi og Viðreisn og VG og aðeins eilítið minna fylgi en Samfylkingin. Sósíalistar eru komnir í þá stöðu í Suðurkjördæmi að aðeins Framsókn og Sjálfstæðisflokkur, og líklega Miðflokkur, er stærri, svo nemur meira en vikmörkum. En þarna er því stillt upp að Viðreisn og VG fá mann inn á þing fyrir 7,9% atkvæða en Sósíalistar ekki. Samt fær Miðflokkurinn tvo menn út á 13% fylgi, maður nr. 2 fer inn á 6,5%. Hvers vegna? Bara vegna þess að Mogginn segir það.
Fréttin í þessu kjördæmi, eins og öðrum, er auðvitað vöxtur Sósíalista en Mogginn kemur sér undan því og skrifar undir þessu grafi fyrirsögn um að kosningarnar snúist um stöðugleika og svo einhverja endursögn úr munni stofnanaflokkanna, þeirra sem sækja stöðu sína í fé úr ríkissjóði en ekki í raunverulegt pólitískt starf. Rétt framsetning væri að segja að fyrstu þingmenn Flokks fólksins, Sósíalista, Viðreisnar, VG og Samfylkingar væru að keppa um þingsæti við annan mann Framsóknar og þriðja mann Sjálfstæðismanna.