„Kona sleppti æfingu sem hún var að eigin sögn að fara á í Iðnó og sat í staðinn á fjórðu klukkustund takandi upp með leynd fyllerísröfl í hinum enda ölhússins. Sú var ekki upptekin,“ segir Davíð í Reykjavíkurbréfi morgundagsins.
„Konan sagðist aðeins hafa þekkt einn af þessum 6 í sjón en tók samt upp þeirra tal, því þeir höfðu svo hátt! Því verður að ætla að þarna hafi verið á ferðinni mikill áhugamaður um þjóðfélagsmál. Og fyrir útsjónarsemi örlaganna reyndust þessir 5 við borðið, sem hún þekkti ekki haus né sporð á, en hleraði samt, vera í hópi óþekktra þingmanna og jafnframt í þessu tilviki í hópi óþekku þingmannanna. Því má ætla að upptökustjórinn þekki aðeins 10 þingmenn af 63 í sjón. Þó voru í þessum hópi, fyrir utan þann sem hún kannaðist við, einn fyrrverandi utanríkisráðherra og svo þingflokksformaður sem hefur haft töluverða fyrirferð í fjölmiðlum.
Almenningur hefur það sér til afsökunar að mikil umskipti hafa verið í þingsalnum og flestir standa nú orðið stutt við þar, sem er eftirtektarvert, ekki síst þar sem ýmsir úti í bæ agnúist út í það hvað launin séu há.“