Maður í rannsóknarlögreglunni skrifaði:
„Ég hef verið að velta þessu fyrir mér. Ef þetta hefur verið skipulögð fyrirsát með upptökutæki.
– Af hverju var þá valið kvöld í miðri viku meðan þingfundur stóð yfir?
– Var þekkt að tilteknir þingmenn skrópuðu á þingfundi til að fá sér bjór?
– Var þekkt eða umtalað að þessir þingmenn viðhefðu óviðeigandi orð um samþingsfólk sitt?
Hafi nú verið um vel undirbúið „plott“ að ræða, af hverju að velja þingmenn úr hópi fámennra flokka í minnihluta á þingi, sem höfðu í sjálfu sér ekki mikil áhrif á framgang þingmála?
Hverjir ættu síðan að standa að baki „plottinu“? Meirihlutinn á Alþingi? DV? Eða e.t.v. Soros sjálfur, höfuðpaur vogunarsjóðanna?
Bergþór Ólason Klaustursþingmaður fullyrti í Mogganum að aðdragandi upptökur Báru Halldórsdóttur væri allt annar en Bára hefði sagt.
Mogginn talaði loks við Bári í blaði dagsins:
„Nú eru þeir með rangfærslur sem ég get í raun lítið gert í nema sagt að séu rangfærslur, því ég hef ekki gögnin til að birta þau. Við skoðuðum þessar upptökur fyrir mörgum vikum og það er engin ástæða fyrir því að vekja þessa umræðu aftur núna,“ segir Bára.
Hún gefur ekki mikið fyrir fréttaflutninginn af málinu um helgina, þar sem í grein Morgunblaðsins hafi því gaumgæfilega verið lýst hvað hún gerði þetta kvöld. Svo til með mínútu nákvæmni þar sem gjörðum hennar var lýst sem skipulagðri aðgerð.
„Mér finnst þetta hálfkjánalegt. Ég veit að þetta stenst ekki því ég hef séð þetta myndband sjálf. Ég veit ekki hvort fólki finnst það trúanlegra að hafa svona mikið af smáatriðum, en þetta stenst ekki.“
Bára segist ávallt hafa tekið ábyrgð á því að hafa komið fram með hljóðupptökuna frá barnum þetta kvöld. Enn sé verið að reyna að afvegaleiða kjarna málsins.
„Það er einstaklega mikilvægt að við gleymum ekki af hverju þetta hneykslaði þjóðina. Það var ekki af því að einhver tók þá upp, heldur út af því sem þeir sögðu,“ segir Bára Halldórsdóttir.“