„Langt fram eftir síðustu öld var talað um hina þjóðlegu atvinnuvegi. Það var þjóðlegt að veiða og vinna fisk, og það var þjóðlegt að stunda mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Ríkisstjórnir og Seðlabanki lögðu mikla áherslu á að fjármagna rekstur þessara atvinnugreina með niðurgreiddum afurðalánum, jafnframt því sem Seðlabanki og viðskiptabankar gerðu samkomulag um að takmarka útlánaaukningu til verslunar og þjónustu. Tuttugasta öldin einkenndist af langri baráttu fyrir fríverslun, afnámi tolla og hvers kyns hamla í utanríkisviðskiptum og frjálsu flæði fjármagns. Það er þversögn tuttugustu aldar; þjóðlegir atvinnuvegir og frjáls verslun,“ þetta er að finna í nýrri Moggagrein Vilhjálms Bjarnasonar, fyrrum alþingismann Sjálfstæðisflokksins.
„Ráðamenn vildu hafa hemil á íslenskum þegnum með löggjöf: „Lög um heimild fyrir landstjórnina að takmarka eða banna innflutning á óþörfum varningi.“ Ráðherra er varð í tvígang varaformaður Sjálfstæðisflokksins undirritaði „reglugjörð um bann gegn innflutningi á óþörfum varningi“. Allir bankar þóttust standa við það en Búnaðarbankinn einbeitti sér að því að brjóta samkomulagið, til þess að eiga arðsöm viðskipti við þjónustugreinar. Afkoma í landbúnaði var jafn ömurleg þá og nú!“
*Ráðherrann er Gunnar Thoroddsen sem varð tvívegis varaformaður Sjálfstæðisflokksins, fyrst 1961–1965 og síðan 1974–1981.