Stjórnmál

Bankasölumálið: „Þeir eru að springa af peningum“

By Miðjan

January 20, 2021

„En þá ætla ég líka að segja þetta: Vei þeim ef lánasöfnin sem eru fryst verða sett á brunaútsölu þannig að einhverjir ákveðnir aðilar með fulla vasa af peningum geti nýtt sér það að fjárfesta í frosnum lánum þeirra sem eru á ís til að reyna að koma þeim í var, sérstaklega ferðaþjónustufyrirtækjum,“ sagði Inga Sæland á Alþingi.

„Vei þeim ef þeir ætla síðan að innheimta þau lán að fullu og ráðast á þessi sömu fyrirtæki vegna þess að þeir hafa fengið heimild, hverjir svo sem það verða, til þess að hirða þessar eignir á brunaútsölu. Ég ætla að vona að við eigum aldrei eftir að þurfa að horfa upp á nákvæmlega það sem við þurftum að horfa upp á í síðasta efnahagshruni. Ég ætla bara að vona það. En ég get ekki séð neina tryggingu, hvergi í lögum eða neins staðar, að það sé tryggt að þannig verði ekki farið með þessa frystingu á lánunum. Ég get ekki séð það,“ sagði hún.

„Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi verið að lækka bankaskatt og gert allt sem í hennar valdi stendur til að reyna að aðlaga enn þá frekar og tryggja enn þá betur rekstur bankakerfisins, bankanna sem eru að springa af peningum, virðulegi forseti, svo það sé algerlega á hreinu. Þeir eru að springa af peningum.“