Jón Sigurðsson, sem er meðal annars fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og Seðlabankastjóri, er ósammála núverandi forystu flokksins. Jón er greinilega ekki sáttur við hversu deigur núverandi formaður Framsóknar er í samstarfinu við Sjálfstæðisflokks.
„Illu heilli ákváðu stjórnarflokkarnir á sínum tíma að selja Íslandsbanka einkaaðilum til rekstrar í hagnaðarskyni. Nú reynir ríkið að koma bankanum í verð í samræmi við þessa óheppilegu ákvörðun. Hópur ráðgjafarfyrirtækja hefur þetta verkefni sér að féþúfu. Ekkert er ókeypis,“ skrifar Jón í Moggann í dag.
„En þetta breytir hinu ekki að það er spillingarvaki að ríkisvaldið fari með yfirráð yfir banka. Stjórnmál og bankastarfsemi blandast mjög illa, eins og dæmin sanna. Ríkið þarf að losa tengslin, en ekki með þessum hætti. Og vonandi reynist þetta þó farsælla en síðast þegar selt var.“
Jón heldur áfram: „Það er beinlínis vafasamt að erlendir arðsæknir kaupahéðnar eignist ráðandi hlut í íslenskum kerfismikilvægum banka. Það er líka stórhættulegt, og reynsla sýnir það, að lífeyrissjóðirnir taki áhættu af bankarekstri á sig. Ekki er það síður óæskilegt að forráðamenn stórfyrirtækja nái frekjutaki á kerfismikilvægum banka.
Æskilegast er að kerfismikilvægir bankar, sem eiga meðal annars að þjóna almenningi, séu sjálfseignarstofnanir sem vinna að arðsóknarlausri almannaþjónustu. Til hennar teljast sparisjóðsþjónusta og ýmsar sparnaðarleiðir, lánaþarfir fjölskyldna og einstaklinga, fyrirgreiðsla við íbúðakaup og bílakaup, jafnvel lán vegna námskostnaðar, og fleira slíkt.
Ef það er mikilvægt í þessu máli að ríkissjóður nái greiðslum til sín eru margar leiðir færar til slíks.
Margar leiðir eru líka færar við ákvörðun um stjórnskipan slíkra banka. Ýmis samfélagsöfl koma til greina við skipun fulltrúaráðs, ásamt Alþingi og sveitarfélögum, og líka við kjör stjórnar. Miklu skiptir að eigin ábyrgð sé alveg skýr og fulltrúar séu óháðir í afstöðu og ákvörðunum.
Bankarnir geta síðan átt og rekið sérstök dótturhlutafélög um áhættustarfsemi, fjárfestingar- og einkabankaþjónustu, verðbréf, nýsköpun, fyrirtækjaþjónustu, alþjóðasamskipti, gjaldeyrisviðskipti og önnur slík verkefni. Vel kemur til greina að fjárfestar geti komið þar að máli með bönkunum.
Verði fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar að veruleika, – sem vonandi verður ekki –, verður Alþingi sem allra fyrst að setja sérstök lög til að verja (e. ring-fence) almannaþjónustuna og aðgreina hana frá öðrum þáttum í starfsemi bankanna.
Reynslan hefur kennt þjóðinni að þetta er alveg nauðsynlegt.“