Bankasala eða bankagjöf og vinstri vangi Samfylkingarinnar
Alþingi:
Oddný: „En nei, svo er ekki. Hann er hæstánægður.“
Bjarni: „Samfylkingin sem trúir því eingöngu að ríkið eigi að fara með slíka hluti og eigi að beita eignarhlutum sínum í fjármálafyrirtækjum til að gefa fólki góð kjör.“
„Nú vitum við hvers virði eignarhluti ríkisins er sem ekki var seldur. Við höfum beitt markaðnum til þess að fá endanlegt verð á þann hlut og það kemur í ljós að við höfum líklega verið að vanmeta þessa eign okkar þrátt fyrir að við höfum núna selt á markaði yfir bókfærðu verði ríkisins,“ sagði Bjarni Benediktsson hróðugur á þingdeginum í simar.
„Ég hélt að það hlytu að vera töluverð vonbrigði fyrir hæstvirtan ráðherra að þeir sem gagnrýndu söluáformin og nú söluna hafi í raun haft rétt fyrir sér allan tímann, að hæstvirtur ráðherrann hefði búist við öðru. En nei, svo er ekki. Hann er hæstánægður,“ sagði Oddný Harðardóttir.
Oddný hélt áfram: „Ekki er furða að þátttaka í útboðinu hafi verið afbragðsgóð, enda verið að gefa hluta af arðbærri eign. Fjárfestar fengu eign almennings að gjöf og það er ekkert annað en bankagjöf að selja hluti bankans á undirverði sem kaupendur seldu svo á rúmlega fullu verði örfáum dögum síðar. Blasir ekki við að nýir eigendur, hverjir sem þeir nú eru eða verða, geri hærri ávöxtunarkröfu og að viðskiptavinir bankans — sem flestir höfðu ekki ráð á því að taka þátt í útboðinu því það er ekki svo að allur almenningur eigi milljón til að skella á borðið til að kaupa sér hlut á afsláttarverði í banka þurfi að greiða fyrir arðsemiskröfu nýrra eigenda með hærri vöxtum og þjónustugjöldum til bankans?“
„Það var þarna í síðustu orðunum sem við sáum í vinstri vangann á Samfylkingunni, vangann sem trúir því ekki að fjármálafyrirtæki geti yfir höfuð verið í einkaeigu, þ.e. á almennum markaði, Samfylkingin sem trúir því eingöngu að ríkið eigi að fara með slíka hluti og eigi að beita eignarhlutum sínum í fjármálafyrirtækjum til að gefa fólki góð kjör,“ fullyrti Bjarni.
„Væntanlega að fara í einhvers konar núllrekstur. Það var nákvæmlega þessi hugmyndafræði sem hefði mátt koma fram fyrir söluna. Ekki koma hingað eftir söluna og tala um að verðið hafi ekki verið nógu hátt. Þið eruð ekkert að tala um það. Þið eruð að tala um það að þið viljið einfaldlega ekki að svona hlutir séu markaðssettir, jafnvel þótt þið hafið á sínum tíma setið í ríkisstjórn og boðað 30% sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Fólkið sem vill ekki selja banka á bara að segja það hreint út. Aðferðafræðin sem notuð var í þessu dæmi, þessu máli, sölunni á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, var teiknuð upp í ríkisstjórnartíð Samfylkingarinnar. Lögin um Bankasýsluna, aðferðafræðin sem beitt var — nákvæmlega forskrift Samfylkingarinnar úr ríkisstjórn,“ sagði Bjarni Benediktsson.