Bankarnir skila umtalsvert minni hagnaði en arðsemiskrafa ríkisins gerir ráð fyrir. Hagnaður af eiginlegum bankarekstri gengur samt betur en áður. Það er ekki síst vegna aukinna tekna af hreinum vaxtatekjum, sem jukust um níu milljarða króna á milli áranna 2015 og 2016.
„Miðað við gríðarsterka eiginfjárstöðu bankanna er algerlega óeðlilegt af hálfu ríkisins að fara fram á meira en 7% arðsemi. Í fyrirtækjum þar sem eigið fé er lítið er áhætta hlutafa meiri og því sanngjarnt að þeir fari fram á hærri arðsemi en það á alls ekki við um bankana í dag. Óhófleg arðsemiskrafa ríkisins til banka sem eru í fákeppni leiðir til þess að landsmenn þurfa að greiða hærri vexti og þjónustugjöld en ella,“ skrifar Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður og þá formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Hann var spurður hvort ekki vanti erlendan banka. „Það er óþarfi, í raun væri nóg að fjármálaráðherrann tæki ákvörðun um að lækka arðsemiskröfuna og fela t.d. Landsbankanum að stuðla að bættri þjónustu á betra verði, í stað þess að hámarka arsemi í fákeppni eins og nú er raunin.“
Ragnar Önundarson segir á sama stað: „Hringavitleysa: ,,Ríkið“ er sameign landsmanna. Það er gervigróði að okra á eigendum sínum.“ Og Marinó G. Njálsson segir: „Arðsemiskrafa ríkisins er algjört rugl og hluti af þessari fjárfestagræðgi sem viðgengst í landinu. Sést vel á því, að þegar Hagar eru loksins að sýna eðlilega arðsemi, þá fellur gengi bréfa fyrirtækisins eins og steinn til botns.“
-sme