Ljósmynd: Róbert Reynisson.

Greinar

Baneitruð karlmennska í allri sinni dýrð

By Ritstjórn

December 02, 2018

Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann.

Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann, á Austurvelli í gær:

Takk til allra þeirra sem mættu í dag í kuldanum. Við verðum að halda áfram að hafa hátt þar til þeir láta sig hverfa af Alþingi, annað er ekki í boði.

Hér er ræðan mín í heild sinni fyrir áhugasama: Ég heiti Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann og ég er drusla. Sú háttsemi og það umtal sem er tilefni þess að við erum komin hingað saman til að mótmæla í dag, er stútfullt af hatri og vanvirðingu við nánast alla samfélagshópa, að undanskildum valdamiklum karlmönnum.

Þær konur sem teknar voru fyrir voru ýmist dæmdar fyrir útlit sitt, rakkaðar niður fyrir að standa á sínu eða druslu-skammaðar. Það að fólk í valdastöðu meti starfshæfni kvenna út frá útliti þeirra er gjörsamlega galið og í andstöðu við allt það sem við viljum trúa um feminísku paradísina sem við teljum okkur lifa í árið 2018.

Ekki nóg með það að þessir kjörnu fulltrúar löggjafarvaldsins hafi svívirt konur, bæði samstarfskonur og aðrar, konur með fötlun, samkynhneigða og menn sem falla ekki inn í staðlaðar hugmyndir þeirra um karlmennsku, heldur hæddust þeir einnig að #metoo byltingunni.

Þetta hér er baneitruð karlmennska í allri sinni dýrð og allt er þetta partur af nauðgunarmenningu.

Ég get ekki komið því almennilega í orð hversu alvarlegt það er, þegar að fólk í þessari valdastöðu notar frásagnir þolenda um kynferðisofbeldi, sem brandara. Nú hafa þeir dregið ásakanir á hendur ónefndrar þingkonu til baka, en það breytir því ekki að hugsunarhátturinn að baki þessum skoðunum er enn til staðar.

Það að grínast með svona alvarleg mál gerir það að verkum að þeim tekst að gera lítið úr öllum þeim þolendum sem stigið hafa fram og sagt sína sögu. Ekki nóg með það heldur tekst þeim líka að gera lítið úr alvarleika kynferðisbrota. Fólk sem tekur kynferðisbrotum ekki alvarlega á ekki heima í valdastöðu og hvað þá inni á Alþingi, sem hefur ákvörðunarvald þegar kemur að lögum um þennan málaflokk.

Nú halda sumir því fram, bæði þeir sem orðin eiga og stuðningsmenn þeirra, að þessi orð sem féllu þetta umrædda kvöld hafi einungis verið “meinlaust drykkjuraus”. Sú afsökun hefur lítið vægi, því orð þeirra bera merki um djúpa fyrirlitningu sem greinilega er undirliggjandi.

Nú þekki ég þessa einstaklinga ekki persónulega og ætla því ekki að tjá mig um það hvernig manneskjur þau eru. En hvernig eigum við að geta treyst því að fólk sem getur ekki haft stjórn á sjálfu sér og því sem það segir, geti stjórnað landinu. Það er gjörsamlega ólíðandi, að þetta fólk sitji hér enn við völd. Fólk, sem hefur það ekki einungis í sér að hugsa þessa hluti til að byrja með, heldur tjáir sig um þá með þessum hætti og þá einnig við aðra aðila í samskonar valdastöðum.

Það segir sig sjálft, að þingmenn sem líta niður á alla þessa samfélagshópa, bera ekki hag allrar þjóðarinnar fyrir brjósti við ákvarðanatöku um lög sem varðar okkur öll.

Við þurfum að átta okkur á þeim skilaboðum sem við sendum kjörnum fulltrúum ef við leyfum þeim að sitja áfram eftir þessa hegðun. Skilaboðin eru einfaldlega þau að þeir geti komist upp með nánast allt án þess að þurfa að axla ábyrgð á því.

Við þurfum að setja skýr mörk um það hvernig samfélagi við viljum búa í og þetta er tækifæri fyrir okkur til að sýna það að við líðum ekki að fólk, sem er stútfullt af mannfyrirlitningu, sitji hér við völd.

Hættum að afskrifa kvenfyrirlitningu og kvenhatur sem bara einhverjar „skoðanir“ sem mönnum er frjálst að hafa út af fyrir sig.

Hættum að leyfa mönnum að titla sig „femínista“ eða „he for she“ þegar þeir hegða sér í andstöðu við það. Svona mál verða að hafa afleiðingar ef jafnrétti kynjanna á einhvern tímann að nást.

Þið sem létuð þessi fjandsamlegu ummæli falla á Klaustri þetta umrædda kvöld. Ég krefst þess að þið sýnið þá virðingu að segja af ykkur og víkið úr sætum.

Látið af embættum ykkar, ekki einungis fyrir þjóðina sem treysti ykkur fyrir þessum embættum til að byrja með, heldur einnig fyrir allt samstarfsfólk ykkar sem þið svívirtuð.

Það er ekki nóg að biðjast afsökunar þegar það kemst upp um ykkur. Þið eruð hluti af vandamálinu – takið ábyrgð og segið af ykkur.