Menning Bandaríski sendiherrann á Íslandi, Robert C. Barber og Hafþór Yngvason safnstjóri Listasafns Reykjavíkur skrifuðu í dag undir styrktarsamning vegna nýs samstarfverkefnis í tengslum við listaverk bandaríska listamannsins Richard Serra. Með verkefninu bjóða Listasafn Reykjavíkur og Bandaríska sendiráðið m.a. upp á listasmiðjurnar Nám í náttúru og list í Viðey í sumar fyrir börn á aldrinum 8-13 ára í tengslum við sýninguna Áfanga á verkum bandaríska listamannsins Richard Serra í Hafnarhúsinu. Listsmiðjurnar standa í viku í senn þar sem áhersla verður lögð á samband myndlistar og náttúru og tenginguna við Áfanga, verk Richard Serra í Viðey. Á þessu ári er aldarfjórðungur síðan verkið var sett upp í Viðey og af því tilefni efnir Listasafn Reykjavíkur til sýningar með sama heiti í Hafnarhúsinu sem opnar þann 21. maí. „Listsmiðjurnar í Viðey tengja myndlist, náttúru eyjunnar og fræðslu saman á nýstárlegan hátt. Hér fá börn og unglingar tækifæri til að kynnast listaverki eins merkasta listamanns samtímans um leið og þau læra að meta og skilja náttúruöflin sem mótuðu þeirra næsta umhverfi,“ sagði Hafþór Yngvason safnstjóri Listasafns Reykjavíkur. „Við þökkum Bandaríska sendiráðinu fyrir áhuga þess á list, náttúru og fræðslu og fyrir þann rausnarlega styrk sem það veitir til að tengja þetta saman á þennan hátt.“
„Það gleður Sendiráð Bandaríkjanna að styrkja þetta verkefni sem sameinar kennslu, náttúru og list á áhugaverðan hátt. List er án landamæra og í gegnum listina getum við deilt reynslu þekkingu og gildum,“ sagði Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. „Richard Serra er vel þekktur bandarískur listamaður og þetta er frábært tækifæri til að kenna næstu kynslóð að meta íslenska náttúru í gegnum list hans.“