Bandalag Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er stærsti pólitíski vandinn
- samstarf flokkanna er bandalag um kyrrstöðu og; „...ýtir jafnframt undir óvissu um alþjóðlegar skuldbindingar okkar.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, skrifar grein í Tímamót Moggans, sem komu út í dag. Þar fjallar hún til dæmis um stjórnmál dagsins hér á landi:
„Sjálfstæðisflokkurinn var áður kjölfesta og forystuafl fyrir pólitískri og efnahagslegri samvinnu við aðrar þjóðir. Nú er hann klofinn í tvær fylkingar þar sem takast á þjóðernisleg einangrunarhyggja og frjálslynd viðhorf um alþjóðasamstarf.
VG og forverar þess stóðu áður gegn hverju skrefi sem stigið var í þessum efnum. Nú hefur flokkurinn gert sátt um að taka stjórnskipulega ábyrgð á fortíðinni gegn því að ræða ekki þær nýju áskoranir sem Íslands stendur andspænis í framtíðinni. Það er vissulega framför, áhugaverð fyrir sagnfræðinga, en ekki það sem komandi kynslóðir eru að kalla eftir.
Þetta bandalag er í hnotskurn stærsti pólitíski vandinn á Íslandi um þessar mundir. Bandalag kyrrstöðu sem ýtir jafnframt undir óvissu um alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Þrátt fyrir að alþjóðasamstarf hafi aukið réttlæti og jafnað aðstöðumun í samfélaginu – og mun gera það enn frekar með nýjum gjaldmiðli.“