„Það er óboðlegt og sæmir ekki opinberri stofnun að eyða 50 milljónum í jólagjafir fyrir starfsmenn sína hjá einni lítilli verslun líkt og Landspítalinn gerði þegar hann keypti jólagjafir fyrir starfsmenn af versluninni Kokku við Laugaveg. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Baldurs Borgþórssonar borgarfulltrúa Miðflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar,“ segir á utvarpsaga.is.
„Baldur segir að þegar hann fór að kanna málið hafi hann orðið enn meira undrandi þegar hann komst að því hver rekur verslunina.
„Það er einn helsti stuðningsmaður Dags B. Eggertssonar í því að loka Laugaveginum fyrir bílaumferð. Þegar ég fór að kanna þetta enn frekar þá komst ég að því að eigandi verslunarinnar Kokku við Laugaveg, sem heitir Guðrún sé svæðisstjóri hjá Samtökum sem heita Miðborgin okkar. Það er undarlegt að konu sem starfar fyrir þessi samtök, og er í forsvari fyrir þá aðila sem reka verslanir þarna, skuli finnast þetta bara í lagi, í stað þess að keypt væri til dæmis gjafabréf sem margar verslanir gætu þá notið góðs af en ekki bara einn aðili“, segir Baldur.
Sem fyrr segir er fréttin sótt á utvarpsaga.is.