- Advertisement -

Baldur og Konni, Bjarni og Katrín

Það er að verða æ flóknara að greina mun á málflutningi formanna Vg og Sjálfstæðisflokks. Á vef rúv má lesa þetta:

„Það hafa orðið launahækkanir undanfarin ár, það hefur orðið kaupmáttaraukning en um leið og launin hafa hækkað þá hefur auðvitað skattbyrði tekjulægri hópanna aukist, eðli máls samkvæmt og það skiptir máli að við skoðum það með gagnrýnum augum.“

Nú er spurt, hvort sagði þetta Bjarni eða Katrín? Svarið er Katrín Jakobsdóttir.

Og þetta: „Við erum að sjá núna að það er verið að boða hækkanir sem ég hef áhyggjur af því það skiptir auðvitað líka máli fyrir launafólk að verðbólgunni sé haldið niðri og að vextir verði áfram lækkaðir.“

Aftur er spurt, hvort sagði þetta Bjarni eða Katrín? Svarið er Katrín Jakobsdóttir.

Síðan var spurt: „Og eru einhver bein tengsl á milli launahækkana og verðbólgu?“

„Ja, við höfum dæmi um það síðast að þá voru laun hækkuð og verðbólgan fór ekki af stað. Fyrir því voru ýmsar ástæður þannig að í þessu er ekki beint orsakasamhengi, hins vegar höfum við önnur dæmi um að launahækkanir hafi valdið verðbólgu. Þetta eru margir samhangandi þættir sem skipta máli en stóra myndin þarf alltaf að vera undir í öllum þessum samtölum.“

Þá er spurt, hvort sagði þetta Bjarni eða Katrín? Svarið er Katrín Jakobsdóttir.

Og að lokum:

„Við undirbúum núna breytingar á skattkerfinu sem ættu að nýtast bæði launafólki og atvinnurekendum, þá erum við að horfa til lækkunar á tryggingagjaldi sem nýtist atvinnureikendum og þess hvernig við getum létt skattbyrði af tekjulægsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Ég held það geti skipt máli fyrir kjarasamninga um áramót að ríkisstjórnin sé að leggja áhersla á þessa hópa í sinni vinnu við endurskoðun á skattkerfinu.“

Enn er spurt, hvort sagði þetta Bjarni eða Katrín? Svarið er Katrín Jakobsdóttir.

Bjarni gæti hæglega verið höfundar alls þess sem Kaatrin segir í viðtalinu. Eina sem vantar upp á er gott dass af hroka. Katrín hlýtur að ná honum innan skamms. Þau hljóma orðið einsog Baldur og Konni sem voru mjög vinsælir, vinsælli en Bjarni og Katrín.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: