Vilhjálmur Birgisson skrifaði:
Fasteignagjöld hækka umtalsvert á komandi ári hjá Akraneskaupstað og sem dæmi þá hækka fasteignagjöld hjá þeim sem búa í fjölbýlishúsum um 17,6% eða sem nemur um 3.000 króna hækkun á mánuði.
Hjá þeim sem búa í raðhúsum eru fasteignagjöld að hækka um 11,56% og hjá þeim sem búa í einbýli um 12,06%. Stór hluti af þessari hækkun er tilkominn vegna breytinga á álagsprósentu fasteignagjalda enda er þessi hækkun umtalsvert yfir árlegri hækkun á fasteignamati.
Gjaldskrár sem tengjast barnafjölskyldum hækka um 3,5% en fjölmargar gjaldskrár hækka hins vegar um 5,6%.
Það er eins og alltaf að öllum vanda er miskunnarlaust varpað á herðar heimilanna, launafólks og fyrirtækja en eftir mínum heimildum eru fasteignagjöld á fyrirtæki að hækka um allt að 25%.
Það ber þó að geta þess að ógegnsæið í þessum hækkunum er umtalsvert og mér finnst að bæjaryfirvöldum beri skylda til að auka gegnsæið í auknum álögum á bæjarbúa en hafi ekki þessar hækkanir í felubúningi til að íbúar átti sig á hinum ýmsu hækkunum.
Greinin er fengin af Facebooksíðu Vilhjálms.