Greinar

„Bæjarstjórinn okkar er harðstjóri“

By Ritstjórn

October 21, 2020

Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi, skrifar eftirfarandi:

Það er ástæða fyrir því að Nesfréttir er uppáhalds fjölmiðilinn minn! Í blaði dagsins skrifa 3 af 4 bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins greinar um hvað rekstur bæjarins og málefnastarf meirihlutans sé í góðum höndum. Að lokum birtist svo grein frá tveimur fráfarandi stjórnarmönnum í Sjálfstæðisfélaginu sem voru að segja sig frá nefndar- og trúnaðarstörfum á vegum bæjarins vegna þess að (bein tilvitnun):

„Bæjarstjórinn okkar er harðstjóri. Hún hlustar ekki á samstarfsfélaga sína, bæjarbúa sem hún á að þjóna eða sína nánustu trúnaðarmenn. Hún er eyland.”

„Vanhugsaðar ákvarðanir án samráðs og ákvarðanafælni, endurspegla vinnubrögð núverandi meirihluta bæjarstjórnar.”

„Nú er Covid mætt og því verða allar afsakanir um lélegan rekstur bendlaðar við faraldurinn en ekki vanhæfa stjórnarhætti bæjarstjórnar. Hverjar eru afsakanirnar fyrir síðustu tvö ár?”

Greinar og viðbrögð bæjarfulltrúa XD eru panik viðbrögð við skoðanakönnun sem birtist á dögunum þar sem kom fram að aðeins 26% íbúa telur rekstur bæjarins vera í góðum höndum og sama hlutfall styður bæjarstjórann. Fyrir síðustu kosningar buðu tvö klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum fram og nú virðist flokkurinn halda áfram að klofna eða nú væri kannski réttara að tala um að molna. Fulltrúar meirihlutans ættu kannski frekar að líta gagnrýnin inn á við á það hvað þau geta bætt í sínum vinnubrögðum í stað þess að benda á alla aðra og hjóla reglulega t.d. í fulltrúa Viðreisnar vegna þess að hann sagði sig úr flokknum á síðasta kjörtímabili.

Allt þetta kjörtímabil hefur farið í umræðu um rekstur bæjarins og hefur meirihlutinn skorið niður þjónustu við íbúa, hækkað gjöld á barnafjölskyldur og eldri borgara undir þeim formerkjum að rekstur bæjarins sé í járnum. Laun eru greidd út með yfirdrætti og uppsafnaður halli A sjóðs nálgast nú hratt 1 milljarð á síðustu 6 árum.

Ef það er hins vegar rétt sem meirihlutinn segir, að þetta sé allt misskilningur og pólitísk tuð þá verður gaman að sjá í fjárhagsáætlunargerðinni framundan hvernig hallalaus fjárhagsáætlun mun líta út. Ég reikna þá ekki með frekari niðurskurði og að svigrum sé til staðar til að ráðast í það nauðsynlega viðhald og þær framkvæmdir sem lofað var að fara í af sitjandi meirihluta.