„Í svartsýniskasti á stjórnarandstaðan erfitt með að skynja þessa góðu stöðu.“
Óli Björn Kárason gagnrýnis stjórnarandstöðuna, sem hann segir vera í „svartsýniskasti“ í vikulegri grein sinni í Mogganum.
Þar segir hann á einum stað:
„Sálarangist stjórnarandstöðunnar braust upp á yfirborðið um leið og umræða um breytingu á þingsályktun um fjármálastefnu 2018 til 2022 hófst í þingsal í upphafi vikunnar. Í yfir átta klukkustunda umræðum hafði stjórnarandstaðan flest á hornum sér. Samhljómurinn var hins vegar sérkennilegur. Jafnvel í sömu ræðunni voru stjórnarandstæðingar sammála um að vöxtur ríkisútgjalda væri bæði of mikill og of lítill, nauðsynlegt væri að hækka skatta en kannski lækka þá einnig. En verst virðist það tæta sálarlífið þeirra að ríkisstjórnin skuli, í ljósi breyttrar stöðu í efnahagsmálum, hafa talið skynsamlegt að endurskoða fjármálastefnuna, laga hana að nýjum veruleika, auka svigrúm hins opinbera til að létta undir með heimilum og fyrirtækjum, ýta undir hagkerfið í stað þess að kreppa að því með fjármálastefnu sem byggð er á gömlum upplýsingum.“
Og síðar í greininni segir Óli Björn:
„Heimili og fyrirtæki hafa byggt upp sparnað og dregið verulega úr skuldsetningu. Þau hafa lagfært eigin efnahagsreikninga og eru eins og Seðlabankinn bendir á í Peningamálum, mun betur í stakk búin til að takast á við efnahagsáföll. Í svartsýniskasti á stjórnarandstaðan erfitt með að skynja þessa góðu stöðu.“