Stundum hafa Píratar og Páll Magnússon verið í einum og sama bátnum. En róið í sitthvora áttina. Píratar vilja að akstursreikningar Ásmundar Friðriksson verði rannsakaðir. Það vildi Páll einnig.
Í nýrri Moggagrein skrifar Björn Leví Gunnarsson:
„Þess vegna tel ég nauðsynlegt að segja að það er rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn í þeim efnum. Ég segi þetta þrátt fyrir að ég viti að þessi ummæli hafi verið sögð brjóta gegn siðareglum alþingismanna – vegna þess að ummælin voru og eru rökstudd; af viðurkenningu Ásmundar í Kastljósi og síðar með endurgreiðslu á umræddum akstursgreiðslum. Ég segi þetta án þess að hafa aðgang að neinum öðrum gögnum en hafa birst opinberlega í fyrirspurnum mínum til þingforseta. Ég segi þetta af því að það ætti að vera öllum augljóst að niðurstaða siðanefndar um þessi ummæli er staðreyndalega röng.“
Mál Ásmundar var til umræðu í Alþingi í nóvember 2018. Þórhildur Sunna Ævarsdóttur hafði sagðt í Silfrinu að Ásmundur hefði dregið sér peninga.
Páll Magnússon lýsti vilja sínum til þingrannsóknar á háttarlagi Ásmundar. Á Miðjunni stóð:
„Hún staðhæfði að nafngreindur þingmaður lægi undir rökstuddum grun um glæp, um fjársvik,“ sagði Páll. „Nú vill þannig til að það eru hæg heimatökin hér í þinginu að ganga úr skugga um þetta því að sá grunur hlýtur þá að vera fyrir hendi hjá þeim aðila sem á að hafa eftirlit með því sem hér er á ferð, þ.e. hann hlýtur að vera fyrir hendi hjá þinginu sjálfu eða skrifstofu þess,“ sagði hann.
„Stjórn þingsins eða skrifstofa þingsins getur núna gengið úr skugga um það, hún getur kveðið upp úr um það, hvort þessi grunur sé fyrir hendi. Hvort fölskum faktúrum hafi verið framvísað, hvort fé hafi verið svikið út úr Alþingi með þessum hætti, hvort að slík könnun sé í gangi eða hvort fyrir liggi hjá þinginu, hjá eftirlitsaðilanum, rökstuddur grunur um að þetta hafi verið gert. Úr þessu er hægt að fá skorið hér í þinginu, hjá okkur sjálfum. Því annars er þetta ekki rökstuddur grunur háttvirtur þingmaður heldur það sem mig grunar, órökstuddar dylgjur,“ sagði Páll.