Fréttir

Bað forseta Alþingis um stöðva lygi og rugl stjórnarflokkanna

By Ritstjórn

April 02, 2022

„Ég velti því fyrir mér hvort forseti þurfi að afrugla stjórnarliðið aðeins,“ sagði Andrés Ingi Jónsson Pírati.

„Það er alla vega eitthvað að ruglast í tengslum sínum við raunveruleikann miðað við ummæli formanns Framsóknarflokksins í gær, um þann misskilning hans að stjórnarandstaðan haldi störfum þingsins í gíslingu, og síðan í dag í langhund formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins um að þinghaldið sé allt í hægagangi út af einhverju sem hann kallar málþóf stjórnarandstöðunnar,“ sagði Andrés Ingi.

„Í gær náðum við ekki einu sinni að fullklára fundartíma. Við þurftum að fara snemma heim vegna þess að þegar umræðu um fjarskiptafrumvarpið lauk voru ekki ráðherrar hér til að mæla fyrir fleiri málum. Sama fólk og á samfélagsmiðlum heldur því fram að það gangi um allan bæinn tilbúið með framsöguræðurnar í töskunni til að hlaupa hingað inn og mæla fyrir málum, það fékkst ekki í hús. Þetta var eini þingfundadagurinn í vikunni og ekki er nú stjórnarandstaðan að ákveða að einn af þremur þingfundadögum sé lagður undir stjórnarmál. Nei, það er forseti Alþingis, stjórnarþingmaðurinn sjálfur. Ég ætla að biðja virðulegan forseta að beina því til félaga sinna í stjórnarflokkunum að hætta þessu rugli, að hætta að ljúga því upp á stjórnarandstöðuna að hér höldum við öllu í hers höndum þegar það eru þeirra eigin ráðherrar sem geta ekki einu sinni mætt.“