„Þetta er strax farið að bíta okkur fast hér fyrir austan, þó svo að þeir fyrir sunnan finni lítið sem ekkert ennþá. Það verður svo í haust sem þetta kemur fyrst til með að hafa gífurleg áhrif,“ segir Friðrik Árnason, eigandi Hótel Bláfells á Breiðdalsvík, um boðaðrar skattahækkunar ríkisstjórnarinnar á ferðaþjónustuna.
Ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi funduðu með fjármálaráðherra í vikunni vegna málsins og komu áhyggjum sínum á framfæri, en Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi frá því á ársfundi Samtaka atvinnulífsins fyrir stuttu að stefnt sé að því að setja ferðaþjónustuna í hærra virðisaukaskattsþrep.
Öll ferðaþjónusta landsins sett undir sama hatt
Ívar Ingimarsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar Óseyri og stjórnarmeðlimur SAF segir að ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi séu mjög uggangi yfir hag sínum og telji margir að sín fyrirtæki muni ekki lifa ástandið af – styrking krónunnar, launahækkanair og fyrirhuguð skattahækkun sé einfaldlega of stór biti.
Ívar segir að svo virðist sem sú mikla aukning ferðamanna sem hefur átt sér stað kringum höfuðborgarsvæðið og á Suðurlandi síðustu árin og umræðan um ofsagróða sé heimfærð á alla landshluta. „Tölunar segja aftur á móti allt annað, en einungis um 27% ferðamanna sem heimsækja Íslands koma austur. Ráðherra ferðamála talaði um að ferðaþjónustan sé búin að slíta barnsskónum, en ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi telja að hann hljóti að hafa ruglast og eigi við ferðaþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni, en inn á það svæði koma 98% allra ferðamanna til landsins.“
Meira um málið hér