- Advertisement -

Aumingjans, aumingjans Dagur

Get ekki að því gert að ég finn til með Degi B. Eggertssyni. Hann vill ekkert frekar en að vera borgarstjóri. Jafnvel hvað sem það kostar. Flest þekkjum við þetta. Að langa svo mikið til einhvers að þykja flestu fórnandi til að fá það sem maður helst vill.

Þannig er komið fyrr angans Degi borgarstjóra. Hann beið þolinmóður á hliðarlínunni meðan Jón Gnarr var borgarstjóri. Lét margt yfir sig ganga. Hann vissi að þolinmæði væri dyggð. Og beið blessaður.

Svo varð hann borgarstjóri. Gekk ekkert sérstaklega vel. Jafnaðarmaðurinn þáverandi sigldi samt eigin meirihluta i höfn. Svo var kosið. Þá hófust umskiptin. Meirihlutinn kolféll og góð ráð voru dýr. Já, þau voru það svo sannarlega. Tuttugu og þrír borgarfulltrúar og Dagur aðeins eð tíu í hendi. Já, nú voru góð ráð rándýr.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vildi hann verða málpípa mesta hægri flokksins?

Hann vildi fyrst og fremst og síðast líka halda áfram að vera borgarstjóri. Umfram allt annað. Viðreisn, eða réttara sagt Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hafði það sem Degi vantaði. Tvo borgarfulltrúa. Dagur hitti Þórdísi Lóu. Samningar tókust. Dagur varð áfram borgarstjóri. Þórdís Lóa fékk rest.

Þórdís Lóa er langt til hægri sem og Pawel Bartoszek. Þau skiptu góssinu. Þórdís Lóa varð formaður borgarráðs og Pawel forseti borgarstjórnar. Jafnaðarmaðurinn Dagur stökkbreyttist. Er nú blaðafulltrúi Þórdísar Lóu og Pawels. Verður að mæta hér og þar og boða fagnaðarerindi Viðreisnar. Eða ófagnaðarerindi. Fer eftir smekk.

Dagur fékk það sem hann vildi. Eða hvað? Vildi hann verða málpípa mesta hægri flokksins? Sennilega ekki. Hann langaði svo mikið að vera áfram borgarstjóri að hann fórnaði öllu. Metnaður Dags, sem áður taldist til jafnaðarmanna, sennilega var hann hægri krati, varð til þess að hann er orðinn annar en hann kannski var. Allt til að vera áfram borgarstjóri.

Samfylkingin skaðast vegna metnaðar Dags. Ekki einasti þingmaður þess flokks hefur lýst yfir stuðningi við Dag. Ekki einn einasti. Degi er vorkunn. Aumingjans, aumingjans Dagur. Það versta er að þetta háttalag allt saman bitnar mjög á saklausum. Láglaunafólkinu sem starfar hjá höfuðborginni. Því er seta Dags í skrifstofu borgarstjóra ekki bara dýr Hún er rándýr.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: