Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, hefur sérstöðu meðal þingmanna. Þorsteinn er vel máli farinn. Getur verið hvassyrtur og notar oft fágæt orð í máli sínu. Sérstaða hans er skemmtileg. Nú býr hann við að flokkurinn hans er sem hriplekur bátur og orð hans vigta ekki sem fyrr.
Þorsteinn skrifar grein í Mogga dagsins. Þar segir hann:
„Fyrir nokkrum dögum voru fjárlög, sem eru stefnuskrá hverrar ríkisstjórnar afgreidd, eftir aðra umræðu í þinginu. Við aðra umræðu koma fram þær breytingar sem stjórnmálaflokkar vilja gera á fyrirliggjandi frumvarpi. Að þessu sinni notaði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tækifærið til að ganga á bak orða sinna gagnvart öryrkjum og snuða fátækasta fólk á Íslandi um ellefuhundruð milljónir króna. Fátækasta fólkið á Íslandi á að bíða eftir réttlæti enn um hríð meðan félagsmálaráðherra sem nú er einnig barnamálaráðherra vinnur tillögur sínar varðandi öryrkja sem margir hverjir hafa börn á framfæri sínu.“
Síðan rekur hann tillögur Miðflokksins. Fyrir það fólk sem fylgist með umræðum á þingi munar mikið um Þorstein. Hann líður fyrir að vera í flokki sem á ekki upp á pallborðið.