Aumar aðgerðir ríkisstjórnarinnar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að aðgerðirnar dugi skammt við núverandi vanda. „Hin lausnin á vandanum sem teflt er fram eru síðan að okkar mati lítt ígrundaðar og illa tímasettar skattahækkanir á borð við hækkun tekjuskatts fyrirtækja, auk annarra þátta svo sem lækkun á endurgreiðslu vegna framkvæmda við byggingar, breytinga á gjaldtöku í ferðaþjónustu og óútfærða breytingu á veiði- og fiskeldisgjaldi,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson í Mogganum í dag.
„Þrátt fyrir fögur fyrirheit um aðhaldssama fjármálaáætlun þar sem stigin verða stór skref í að koma böndum á óhóflegan vöxt ríkisútgjalda eru efndirnar því miður litlar. Þær aðhaldsaðgerðir sem eru tíundaðar hrökkva að okkar mati skammt sem viðbragð við þeirri áskorun sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir,“ segir Halldór en aðgerðirnar beri einnig með sér að viljann skorti til þess að taka raunverulegar ákvarðanir um aðhald og beinan niðurskurð í ríkisrekstri.
Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur sagði, á Morgunvaktinni, aðgerðirnar ekki duga og hafa komið á óvart hversu lítið á að gera. Hún telur að erfitt hafi verið að ná lendingu í ríkisstjórninni um alvöru aðgerðir.
Katrín sagði hækkun á verði rafbíla muni hægja á orkuskiptum. Og spurði hvort það sé það sem við viljum. „Það eru engar forsendur til að verðbólgan lækki á næstu mánuðum,“ sagði Katrín Ólafsdóttir.
Halldór Benjamín að aðgerðirnar beri einnig með sér að viljann skorti til þess að taka raunverulegar ákvarðanir um aðhald og beinan niðurskurð í ríkisrekstri.