Aukinn kaupmáttur og stöðugleiki er slíkur að lífsgæði okkar eru í blóma
Hálfur milljarður í hjólastíga, lækkun leikskólagjalda og fortíðardraugur Gilz er meðal þess sem ber á góma þessa vikuna.
Ljúfur hagvöxtur, aukinn kaupmáttur og stöðugleiki er slíkur að lífsgæði okkar eru í blóma. Svo miklum blóma að sumir eru það glaðir og gjafmildir að þeir láta verktaka rífa þakið hjá nágrönnum. Það er ekki slæmt að eiga slíka nágranna sem endurnýja þakið hjá þér að kostnaðarlausu, svona er lífið yndislegt í Garðabæ.
Borgarstjórn situr ekki auðum höndum og splæsir þetta sumarið í hjólreiðastíga fyrir litlar 525 milljónir króna. Margir eru á því að þarna sé fjármagni okkar borgarbúa vel varið. Ég fagna umhverfisvænni samgöngumáta sem hjólreiðar eru svo sannarlega og tala nú ekki um jákvæð heilsufarsleg áhrif. Auðvitað þarf að leggja hjólreiðastíga í áföngum og huga vel að framtíðar skipulagi og gera það án þess að skerða aðra samgöngumáta. Ég verð að viðurkenna að þessi hálfi milljarður hefði mátt fara í að koma í veg fyrir músagang í mötuneytum barna í grunnskólum borgarinnar, berjast gegn myglu í Breiðholtsskóla og jafnvel virkja þær deildir sem eru lokaðar á leikskólum borgarinnar í sparnaðarskyni. Allir hafa skoðun á forgangsröðunni og mín er sú að grunnþjónusta borgarinnar eigi að vera ofar í goggunarröðuninni en hjólreiðar.
Talandi um grunnþjónustu þá hefur Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri hafið kosningabaráttuna. Hann boðar lækkun leikskólagjalda. Lækkunin mun skila foreldrum 3,000kr í sparnað á mánuði. Auðvitað munar um slíka upphæð á ársgrundvelli. Miðað við bætta afkomu borgarsjóðs hefði verið ráð að bæta í málaflokkinn og sjá til þess að þau börn sem eru föst hjá dagmæðrum kæmust á leikskóla. Margar barnafjölskyldur eru í miklum vanda hvað þetta varðar á meðan deildir eru lokaðar. Að lækka leikskólagjöld er elsta trikkið í bæjarpólitíkinni, gleymum ekki loforði VG fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar um gjaldfrjálsan leikskóla. Lækkunin er jú ein bíóferð á mánuði, en spurningin er hvort vilja foreldrar öflugri leikskóla eða eina bíóferð?
Mikið er ég glaður yfir átakinu gegn plastpokanotkun. Er það eðlilegt að við íslendingar notum 35 milljónir plastpoka á ári. Hver poki getur verið allt að 500 ár að leysast upp í náttúrunni og talið er að árið 2050 verði meira plast en fiskar í hafinu. Það er miður að tillaga sjálfstæðismanna í borginni um plastpokalausa borg fékk ekki byr undir báða vængi hjá meirihlutanum. Við verðum að stimpla okkur inn í umhverfismeðvitundina, ég veit að það er erfitt, en ég er að reyna að bæta mig hvað þetta varðar og hvet alla til að gera það líka.
Æi þið verðið að afsaka, en ég hreinlega nennti ekki að horfa á youtube myndbandið hans Óla sparigrís um Búnaðarbankamálið. Að hann sé að ávarpa þjóðina beint frá heimili sínu í Sviss þar sem kostar skildinginn að lifa, í von um hvítþvott mannorðsins. Ég er hreinlega í of miklu sumarstuði til að detta í meðvirknina með honum, en er sannfærður um að upp poppi einstaklingar sem verja hann og finna til samkenndar – ég verð ekki í því liði.
Dramatíkin er allsráðandi í Verzló – feministafélag innan skólans hefur tekið völdin. Gilz var bókaður af nemendafélaginu til að skemmta prófþreyttum unglingum. Nema hvað að feministarnir innan skólans tóku málið í sínar hendur og var Gilz afbókaður. Það er greinilegt að Gilz hjakkast í gegnum lífið með fortíðardrauga á bakinu. Ég er að vísu þannig að ef ekki næst að sanna fyrir dómi sekt manna þá eru þeir saklausir. Þá fékk Ingó veðurguð sömu útreið há Verzló fyrir skoðanir sínar á átakinu free the nipple. Ég hefði frekar haldið að Ingó væri hafnað fyrir það eitt að hafa ekki bætt nýju lagi á lagalistann síðustu árin. Það er einkennilegt að hann skuli ekki styðja átakið, eg geri það í huganum en afþakka algjörlega útsýnið sem heillar mig lítið.
Góða helgi, hlakka til að sjá ykkur öll í biðröðinni við opnun Costco í næstu viku.
Árni Árnason.